„Þegar ég vaknaði á þriðjudagsmorguninn og ætlaði að fara að keyra kærustuna mína í skólann var bíllinn ekki á sínum stað á bílastæðinu og ég bara: „Hvar er bíllinn?“. Kærastan mín bara yppti öxlum og sagðist ekki vita það.“
Þannig lýsir Mogginn í dag frásögn rúmlega tvítugs Palestínumanns, Sohaib Husam Albayyouk, sem varð fyrir barðinu á lögreglu, tengt misskilningi í manndrápsmáli að því er virðist.
Alsaklaus Sohaib vaknaði sumsé við að löggan hafði fjarlægt bílinn hans, sem þó virðist hvergi tengdur málinu.
Parið hringdi í lögregluna þegar bíllinn fannst ekki á bílastæðinu. Þau voru beðin að koma á lögreglustöðina á Dalvegi í Kópavogi að því er Mogginn greinir frá. Þaðan voru þau send á lögreglustöðina við Hverfisgötu í Reykjavík þar sem tekin var skýrsla af Sohaib.
Síðar kom svo í ljós að lögregla hafði tekið bíl Sohaib í misgripum fyrir annan svipaðan af sömu tegund án þess að láta hann vita. Sohaib fékk ekki bílinn til baka fyrr en meira en tveimur sólarhringum eftir að lögreglan hrifsaði bifreiðina af honum vegna misskilnings.
„Þetta er svo mikið rugl. Ef þú tekur eitthvað, verður þú ekki að láta vita? Hvað ef ég hefði verið á leið í flug eða eitthvað?“ Spyr Sohaib í Mogganum.
Fram mun hafa komið órökstuddur grunur hjá löggunni um peningaþvætti.
Þá kom bíllinn skemmdur úr vörslu lögreglu sem þóttist þó ekkert vita um skemmdirnar.
„Þetta er alveg ruglað. Þeir sögðu ekki einu sinni sorrí.“ Hefur Mogginn eftir parinu.
Sjá frétt Morgunblaðsins hér: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/03/14/logdu_hald_a_rangan_golf_og_greindu_svo_fra_stuldi/
Myndin tengist efni fréttarinnar aðeins óbeint.