Vopnavæðing samfélagsins heldur áfram sínum blússandi gangi að því er virðist en tilkynnt hefur verið um það að metfjöldi sérsveitarmanna verði á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í sumar. Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum fagnar liðsaukanum frá ríkisslögreglustjóra.
Karl Gauti Hjaltason gegnir nú embætti lögreglustjóra í Vestmannaeyjum, en hann var áður einn þingmanna Flokks fólksins sem gekk úr flokknum eftir aðkomu sína að Klaustursmálinu og gekk síðar til liðs við Miðflokkinn.
Karl hefur áhyggjur af því að ofbeldi og vopnaburður muni aukast á Þjóðhátíð í sumar vegna komu þúsunda ungmenna til eyja. „Við gerum okkur grein fyrir því og áttum okkur á því að þetta er að aukast, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu og þetta gæti borist hingað auðvitað í tengslum við hátíðarhöld sem hérna eru eins og til dæmis Þjóðhátíð og byrjuðum á síðasta ári að hafa aukin viðbúnað,“ sagði Karl við Vísi.
Í ár verður þó metfjöldi sérsveitarmanna með viðveru á Þjóðhátíð. Það kemur ekkert sérstaklega á óvart að þetta sé afstaða Karls, enda eru fyrrum kollegar hans í Miðflokkknum og Flokki fólksins það fólk sem hrópar þann hræðsluáróður hvað háværast auka þurfi vopnaburð lögreglu og valdbeitingarheimildir, því allt sé á leið í bál og brand hvað ofbeldi varðar. Einnig hafa þeir kollegar verið hvað háværastir í að verja ofbeldi lögreglu gagnvart friðsömum mótmælendum undanfarið, sem mótmæltu aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart Palestínu og Gaza.
Sá hræðsluáróður er að því er virðist orðinn að eðlilegum verkferlum hjá embætti ríkislögreglustjóra og lögregluumdæmanna í kringum landið ef marka má orð Karls og þessa aukningu í fjölda sérsveitarmanna.
Ekki er að sjá að ofbeldi eða vopnaburður hafi verið vandamál á síðasta ári, sem réttlæti þessa aukningu nú. Karl Gauti tilkynnti sjálfur hróðugur á síðasta ári að Þjóðhátíðin þá hafi verið „með þeim bestu hingað til“ hvað varðar löggæsluleg mál. „Lögregla hafði bara mjög rólega nótt framan af. En undir morgun þá var erill vegna ölvunar en engin stórvægileg mál komu upp í nótt“, sagði Karl Gauti þá.
Eitt alvarlegt mál kom þó upp á hátíðinni og það varðaði ofbeldisfulla framkomu lögreglu í garð 19 ára drengs sem er dökkur á hörund. Lögreglan sagðist hafa haft grun um að hópur stráka væri með hníf á sér, en það reyndist ekki vera á rökum reist. Lögreglumenn hafi þó veist að drengnum og tekið hann ofbeldisfullu hálstaki án þess að hann hafi brotið af sér. Það var svo loks í júní síðastliðnum sem ríkið féllst á að greiða drengnum miskabætur vegna málsins.
Ekki nóg með það að engin alvarleg ofbeldismál eða vopnaburður komu upp á Þjóðhátíð í fyrra, heldur var alvarlegasta málið óhófleg valdbeiting lögreglunnar. Samt þykir lögregluyfirvöldum það liggja í augum uppi að auka viðbúnað og vopnaburð lögreglu í ár.