Fast er sótt að Morgunblaðinu þessa dagana vegna umfjöllunar blaðsins um skólamál.
Ekki er langt síðan Ragnar Þór Pétursson kennari fór hörðum orðum um fréttamennsku blaðsins.
„Enn heldur Mogginn áfram niðurlægingarför sinni. Þegar börn í Breiðholti misstu tök á tilverunni og urðu sjálfum sér og öðrum til ama og tjóns voru raðfréttir um að rót vandans væru kúgaðar mæður og feður sem neituðu að taka í hendurnar á kennslukonum. Þegar barn í Garðabæ missir fótanna í tilverunni er það vegna þess að kennarar í sveitarfélaginu fóru í fjögurra daga í verkfall í lok nóvember,“ sagði Ragnar Þór.
Í dag bættist Gunnar Smári Egilsson blaðamaður við hóp gagnrýnenda vegna umfjöllunar blaðsins um ungt fólk, stúlku í Garðabæ á villustigu.
„Það má merkja inngróinn rasisma Moggans meðal annars á umfjöllun blaðsins um ofbeldi meðal ungmenna,“ skrifar Gunnar Smári. „Ef ungmennin eru af erlendum uppruna eða umgangast krakka af erlendum uppruna, eins og kom fram í umfjöllun um ofbeldi meðal barna í Breiðholtsskóla, þá er meinið getuleysi innflytjenda til að aðlagast íslensku samfélagi. Ef börnin eru ekki af erlendum uppruna er ástæðan sögð verkfall kennara, eins og hér er haldið fram í umfjöllun um börn í vanda í Garðabæ. Hugmyndin virðist sú að inflytjendur og skipulögð verkalýðsbarátta sé að grafa undan samfélaginu og eyðileggja börnin okkar. Þannig er hugmyndaheimur Hádegismóa.“
Þá má nefna að sagnfræðingurinn Stefán Pálsson undrast að með vefútgáfu fréttar Mogga birti blaðið mynd úr Mjódd.