Mæðgurnar Zahra Hussein (móðir) og Farah Mohamed dóttir hennar hafa verið teknar höndum og verður vísað af landi brott snemma í fyrramálið. Þær eru sómalskir ríkisborgarar sem sóttu um vernd hér á landi árið 2023 en mál þeirra er afar flókið og fellur raunar utan hefðbundins ramma samkvæmt lögmanni sem nýerið fékk mál mæðgnanna í sínar hendur þegar stúlkan Farah, sautján ára nemi í Flensborg setti sig í samband við hann. Stúlkan hefur verið málsvari móður sinnar og helsti umönnunaraðili hér þrátt fyrir að vera fædd árið 2008, á sautjánda aldursári.
Mæðgurnar komu sem áður segir hingað eftir viðkomu á Kýpur þar sem þeim var veitt mannúðarleyfi. Á undan þeim kom faðir Farah og eiginmaður Zahra og hafði fengið dvalarleyfi þ.e. vernd. Mæðgurnar sóttu við komuna um dvalarleyfi og var umsókn þeirra byggð á mjög sterkum grunni sérstakra tengsla og sameiningu fjölskyldna m.t.t. laganna á þessum tíma en lagaramminn hefur tekið umdeildum breytingum síðan. Í viðtali við Samstöðina sem birt verður í Rauða borðinu í kvöld segir Jón Sigurðsson, lögmaður sögu mæðgnanna.

Hann greinir þar frá óréttlæti sem leiddi til þess að dvalarleyfi föðursins var afturkallað á hæpnum forsendum og honum vísað úr landi til Kýpur, þrátt fyrir að hafa þar ekki öruggt hæli. Með þessu féll umsókn mæðgnanna um sjálfa sig og var synjað fyrst af útlendingastofnun og síðar af kærunefnd en ein forsenda úrskurðar KNÚ í málinu að mæðgurnar gætu reitt sig á stuðning föðursins í Kýpur. Þar er hann hinsvegar ekki. Síðast þegar spurðist til hans var hann í Eþíópíu þar sem hann var kvaddur í her. Ekki hefur heyrst frá honum um nokkurra mánaða skeið, frá því að hann særðist í átökum, fékk í sig byssukúlu. Hann er mæðgunum alveg horfinn.
Veikindi móður, sem vottuð eru af heilbrigðisyfirvöldum, hafa ágerst s.l. ár og nú er svo komið að hún notast við hjólastól og er háð aðstoð dóttur sinnar við helstu athafnir daglegs lífs. Að sögn Jóns hefur Útlendingastofnun og síðar Kærunefnd ekki tekið afstöðu til téðra veikinda. Þá hefur skólaganga stúlkunnar sem gengur í flensborgarskóla verið rofin þegar fáeinar vikur eru eftir af skólaárinu.
Jón segist hafa verið með það til vinnslu að leggja fram endurtekna umsókn til KNÚ vegna málsins sökum aðstæðna og bíði gagna til að klára það ferli. Ákveðinn forsendubrestur hafi átt sér stað í máli þeirra frá fyrri niðurstöðu.
Zarah og Farah eru nú í haldi lögreglu sem að öllu óbreyttu mun fylgja þeim úr landi í fyrramálið. Þær séu í mjög slæmu andlegu ástandi og móðir kvalin á líkama. Hann biðlar til stjórnvalda að gleyma ekki mannúðinni.
Viðtalið við Jón um mál Zarah og Farah má heyra og sjá í rauða borði kvöldsins sem hefst stundvíslega klukkan 20:00