Á aðalfundi Alþýðufélagsins í dag var samþykkt að hækka grunnáskrift að Samstöðinni um 250 kr., úr 2.500 kr. í 2.750 kr. Önnur áskrift hækkar í takt við þetta, þau sem borga tvöfalda áskrift greiða 5.500 kr. og þau sem greiða fjórfalda áskrift greiða 11.000 kr. á mánuði.
Til samanburðar er ódýrasta áskriftin að Stöð 2 nú á 9.250 kr. og full áskrift að Morgunblaðinu 10.490 kr. Áskrift að vikublöðunum Heimildinni og Viðskiptablaðinu eru á 4.690 kr. og 6.495 kr. Áskrift að Samstöðinni er því enn ódýr í samanburði við aðra miðla.
Á fundinum var lögð til breyting á samþykktum þannig að nú verður stjórn Alþýðufélagsins sautján manna. Stjórnin mun skipta með sér verkum og kjósa sérstaka framkvæmdastjórn sem mun stýra félaginu í umboði stjórnar.
Í stjórn voru kjörin Bogi Reynisson hljóðmaður, Einar Már Guðmundsson rithöfundur, Eyjólfur Guðmundsson verkfræðingur, Gísli Tryggvason lögmaður, Guðmundur Hrafn Arngrímsson formaður Leigjendasamtakanna, Gunnar Smári Egilsson blaðamaður, Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur, Kristinn Sigmundsson óperusöngvari, María Pétursdóttir myndlistarkona, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir prófessor, Sanna Magdalena Mörtudóttir forseti borgarstjórnar, Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar, Vigdís Grímsdóttir rithöfundur, Þóra Kristín Ásgeirsdóttir upplýsingafulltrúi, Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri, Þorvaldur Gylfason prófessor og Ævar Kjartansson útvarpsmaður.
Aðalfundi var frestað og verður honum framhaldið þegar ársreikningar ársins 2024 liggja fyrir, en á fundinum voru ársreikningar fyrir 2023 samþykktir.