Nemendur og kennarar í Flensborg komu saman fyrir utan Hótel hraun í Hafnafirði, hvar mæðgurnar Zarah og Farah frá Sómalíu eru hafðar á herbergi undir eftirliti lögreglu á meðan þær bíða þess að vera brottvísað í fyrramálið. Við sögðum frá máli mæðgnanna fyrr í kvöld en lögmaður þeirra Jón Sigurðsson var jafnframt í viðtali við Rauða borðið þar sem hann rakti málið sem er hið sorglegasta.
Farah var á leið í skólann í morgun í próf þegar lögregla mætti á heimili hennar og móður hennar Zarah og hafði þær á brott á hótelherbergið. Þær fengu ekki að taka saman muni og föt áður. Þá fékk Farah ekki að kveðja vini sína sem komu saman fyrir utan hjá þeim í kvöld og hótaði lögregla henni valdbeitingu ef hún færi fram á gang úr herbergi sínu. Farah er á sautjánda ári. Hún náði þó myndum af skólafélögunum í gegnum rifu á glugga herbergisins og sendi blaðamanni sem ræddi jafnframt við hana. Það skal fært til bókar að samtalið var hið átakanlegasta, ég hágrét með Farah á meðan hún lýsti aðstæðum, líðan sinni og móður sinnar og greindi frá óttanum við framhaldið.
Hér má sjá myndir sem Farah náði á símann sinn af kveðjustundinni.


Myndbandið tók vinur á vettvangi en hópurinn söng til vinkonu sinnar og móður hennar.
Fjölmörg hjálpar -og hagsmunasamtök hafa fordæmt málið í kvöld á facebook en þar ber að nefna Rétt barna á flótta, Solaris og No Borders en þau síðastnefndu hafa jafnframt boðað til mótmælafylgdar frá hótelinu í Hafnafirði og að Flugvellinum í nótt.