„Við þingflokksformenn áttum góðan fund með forseta þar sem við, þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar, vorum að viðra m.a. áhyggjur okkar af vinnubrögðum stjórnarþingmanna í nefndum. Virðulegi forseti ætlaði að taka þetta fyrir og ræða við stjórnarþingmenn til að gera bragarbót á,“ sagði Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.
„Hins vegar var það þannig á fundi allsherjar- og menntamálanefndar að ég kallaði eftir því að fá hæstvirtan barna- og menntamálaráðherra inn á fund nefndarinnar til að ræða m.a. ályktun og fyrirhugaðan niðurskurð í tengslum við menntamál, sem er lagt fram í fjármálaáætlun núna, og einnig til að svara við hvaða hagræðingartillögum ríkisstjórnin ætlar að verða frá hagræðingarhópnum. Af þessu eru miklar áhyggjur í samfélaginu, sérstaklega í menntakerfinu okkar, um allt land og það er mikilvægt að fá svör við þessu.
Þá fengum við þau viðbrögð að þessu yrði hugsanlega svarað frá ráðuneytinu eftir páska og því ætti ekki að verða við þessari beiðni minni. Ég ítrekaði það hins vegar að það væri mikilvægt að fá ráðherra inn, en ef skýr svör myndu berast fyrir næsta fund nefndarinnar þá myndi ég að sjálfsögðu falla frá þessari ósk minni. Það var ekki orðið við því. Ég ætla bara að ítreka hérna okkar áhyggjur sem komu fram í gær og hvet hæstvirtan forseta til að ræða við stjórnarþingmenn,“ sagði Ingibjörg þingflokksformaður Framsóknar.