Það er ekki hægt að murka lífið úr hjálparlausum sársvöngum börnum

„Svona líta þjóðernishreinsanir út. Og hver er endaleikurinn hér? Eiga börn á Gaza fara svöng að sofa þangað til að þau vakna ekki aftur?“

„Við landamæri Egyptalands og Palestínu liggja nú rotnandi matarvistir í flutningabílum hjálparsamtaka sem áttu að berast inn á Gaza-svæðið fyrir 58 dögum. Engin mannúðaraðstoð hefur borist inn á svæðið síðan 2. mars; ekkert vatn, eldsneyti, lyf, ekki neitt. Hindrunin er nú notuð sem vopn af hálfu Ísraela og er skýrt brot á alþjóðalögum. Ástandið er algerlega óverjandi. Ég endurtek: Gersamlega óverjandi. Það er hörmulegt og fullkomlega óviðunandi að Ísrael hafi rofið vopnahléið á Gaza og beint vopnum sínum gegn sjúkrabílum og fjölmiðlafólki. Hér verðum við að tala algerlega umbúðalaust. Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur komið afstöðu sinni skýrt á framfæri, m.a. beint við ísraelsk stjórnvöld, og þingheimur allur verður að styðja við þá kröfu að vopnahlé komist á að nýju, ekki seinna en núna,“ sagði Dagbjört Hákonardóttir Samfylkingu á Alþingi í gær.

„Við heyrum mjög oft að hér sé um afskaplega flókið mál að ræða og hér dugi engar einfaldar lausnir. Ég tek undir það og dreg ekki úr því en við getum hins vegar ekki horft upp á það orðalaust að mannúðaraðstoð í stríði sé hindruð með markvissum hætti. Í ofanálag eru loftárásir enn þá daglegt brauð á Gaza. Það er ekki hægt, frú forseti, að murka lífið úr hjálparlausum sársvöngum börnum og óbreyttum borgurum meðvitað án þess að alþjóðasamfélagið láti í sér heyra. Ísraelsk stjórnvöld halda því fram að Hamas eigi nægar birgðir og beri þannig ábyrgð á ástandinu. Ég hef fréttir að færa fyrir þau sem taka mark á þessu því að ég segi að Hamas er ekki Palestína. Þetta eru eins haldlaus rök og hugsast getur. Í þessum töluðu orðum eiga sér stað viðræður í Kaíró og við bindum vonir við að vopnahlé geti komist á aftur í stað þess að saklausum borgurum sé haldið milli steins og sleggju. Íbúar Gaza geta hvergi farið. Mannúðaraðstoðin þarf að komast til Gaza.

Svona líta þjóðernishreinsanir út. Og hver er endaleikurinn hér? Eiga börn á Gaza fara svöng að sofa þangað til að þau vakna ekki aftur?“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí