Gestir í sjónvarpsþættinum Reynsluboltarnir á Samstöðinni í gær gagnrýndu stjórnendur Isavia harðlega. Bogi Ágústsson fréttamaður minnti á að fyrirtækið er í eigu almennings.
Þóroddur Bjarnason félagsfræðiprófessor kallaði aðgengið að flugstöðinni á Keflavík helsta flöskuháls Íslendinga við utanlandferðir fyrir skemmstu í samtali við Ríkisútvarpið.
Björg Eva Erlendsdóttir hjá Landvernd benti í þætti Samstöðvarinnar í gær á að um væri að ræða umhverfis- og loftslagsmál.
Bogi Ágústsson sagði í Reynsluboltunum að Isavia virtist orðið að ríki í ríkinu, sem virtist stjórnlaust. Isavia einblíndi á að græða sem mest. Bogi minnti á að fyrirtækið væri í eigu almennings, þótt stjórnendum virtist það ekki ofarlega á blaði að veita almannaþjónustu.
„Mér finnst frómt frá sagt flugstöðin með þeim allra leiðinlegustu sem ég kem á,“ sagði Bogi og gagnrýndi einnig dýrtíðina í Fríhöfninni, enda æ færri sem versluðu þar.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hagfræðingur gagnrýndi merkingar og tímaáætlanir rútubíla sem aka til og frá flugvellinum. Erfitt væri að sjá hvar mætti leggja og hve mikið það kostaði.
„Mér finnst þetta ömurlegt,“ sagði Sigríður Inga og velti því upp að stjórnvöld myndu blanda sér í aðkomuna að þessum flugvelli.
Eru þá ónefnd gjöld fyrir bílastæði og mörg önnur álitamál sem hafa verið í fréttum.
„Mjög hátt verð og mjög léleg þjónusta,“ segir einn gestanna í þættinum.
Umræðan er á fyrstu mínútum þáttarins, en Reynsluboltar gærdagsins voru í umsjá Björns Þorláks.