Áfengiskaupaaldur hækki í 25 ár

“Í mínum huga er kýrskírt að hækka ætti áfengiskaupaaldur í í 25 ár.”

Þetta sagði einn læknanna sem ræddi áfengi í alfaraleið á opnu málþingi í Hörpu í gærkvöld. Þingið er hluti Læknadaga.

Fjöldi sérfræðinga varaði við skaðsemi áfengis. Lýstu fyrirlesarar áhyggjum af auknu aðgengi og þrýstingi markaðsafla sem ota áfengi sem aldrei fyrr að börnum, ungu fólki og fullorðnum.

Sérfræðingarnir bentu á að drykkja ungmenna og ungs fólks væri sérlega alvarlegt mál í ljósi þess að framheilinn er í mótun allt fram að 30 ára aldri. Áfengi er leysandi efni sem tætir í sundur heilastöðvar og líffæri, að ekki sé talað um félagslegar afleiðingar drykkju. Kostnaður íslenska ríkisins gæti numið á annað hundrað milljarða árlega vegna neikvæðra þátta drykkju samkvæmt umræðu á þinginu.

 Á sama tíma vilja ýmsir lækka áfengiskaupaaldur í 18 ár og auka enn aðgengi.

Hildur Sverrisdóttir og Vilhjálmur Árnason, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, lögðu sem dæmi á síðasta ári fram frumvarp um breytingar á aldurstakmörkunum í lögum. Þau vilja færa áfengiskaupaaldur niður um tvö ár, í átján ár. Hins vegar kom fram hjá læknunum á þinginu að hækka ætti aldurstakmarkið frá því sem nú er í ljósi þess að samtíma hugmyndir um áfengiskaupaaldur byggja á gömlum og úreltum rannsóknum sem vanmeta skaðsemi áfengis.

Þá var rætt meðal sérfræðinganna og læknanna að í dag væri ekkert til sem kallast æskileg hófdrykkja. Öll drykkja er skaðleg þótt stundum auki áfengisneysla tímabundið gleði fólks, eftirköst skila neikvæðri niðurstöðu. Neysla áfengis, jafnvel í litlum mæli, eykur líkur á krabbameinum og mörgu öðru tjóni. Þá eru slys og ofbeldismál oftar en ekki tengd áfengi. Ræða ætti því oftar í fréttum þegar áfengi er sökudólgur að mati fyrirlesaranna. Heilbrigðisfólk þarf ennfremur að hætta að veigra sér við viðkvæmum spurningum um áfengisneyslu skjólstæðinga. Drykkja miðaldra Íslendinga og eldri borgara er vaxandi mein.

Ekkert eðlilegt við íþróttir og áfengi

Normalísering neyslu áfengis eykur hag sérhagsmunaafla á kostnað almannahagsmuna. Ekkert er eðlilegt við að áhorf á fótboltaleik kalli á bjórdrykkju. Fram kom á málþinginu að í þáttum Sýnar væri líkt og otað væri áfengi að áhorfendum í innlendri dagskrárgerð við flest möguleg tækifæri.

Sérhagsmunaöfl móta nú orðið strauma samtímans en ekki hið opinbera líkt og þegar Íslendingar unnu þrekvirki með samhæfðu átaki gegn unglingadrykkja í lok síðustu aldar. Valgerður Rúnarsdóttir yfirlæknir SÁÁ segir að drykkja Íslendinga sé að aukast og ekki síst hjá körlum.

«Við erum föst í lífsnautnastíl  og nennum ekki að hugsa um samfélagið, nennum ekki að huga að því að sérhagsmunaöfl leggja línurnar nú orðið í straumum samfélagsins,» sagði Viðar Halldórsson félagsfræðingur.

Þá kom fram að ef Íslendingur kveður sér hljóðs og leitar eftir stuðningi almennings til að gerast pólitískur fulltrúi væri eðlilegt að spyrja viðkomandi stjórnmálaefni um viðhorf til stefnu í áfengismálum.

Þá klöppuðu viðstaddir sem fylltu Silfurbergssal Hörpu þegar fram kom sú skoðun að tímabært væri að hætta að veita áfengi i opinberum veizlum.

Með sama hætti væri ekkert eðlilegt við að ÁTVR væri með opnar verslanir í flestum plássum landsins á sama tíma og engin leið væri á sömu stöðum að fá sæmilegt grænmeti í búðum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí