Boða til mótmæla gegn útburði flóttafólks á Austurvelli á þriðjudag kl. 13

Hjálparsamtökin Solaris, hreyfingin Refugees in Iceland, mannréttindasamtökin Andóf og samfélagssamtökin No Borders Iceland boða í sameiningu til mótmæla á Austurvelli í dag, þriðjudaginn 12. september, kl. 13 eða hálftíma áður en þingsetning Alþingis á að hefjast, samkvæmt dagskrá, með guðsþjónustu í Dómkirkjunni.

Í tilkynningu um mótmælaviðburðinn, sem birtist á Facebook, segjast aðstandendur mótmæla „ofbeldisfullum útburði flóttafólks, þar sem fólki í mjög viðkvæmri stöðu, m.a. fórnarlömbum mansals og kynferðisofbeldis, er vísað allslausu á götuna, án fæðis, húsnæðis og aðgangi að heilbrigðisþjónustu.“ Þau hvetja fólk til að sýna „þingmönnum og ráðherrum að við sættum okkur ekki við það ástand sem grimmilegar ákvarðanir þeirra hafa leitt af sér með setningu laga í vor, sem heimila að bjargarlausu fólki sé hent á götuna eins og hverju öðru rusli! Látum í okkur heyra og krefjumst þess að allar manneskjur séu frjálsar og hafi skjól yfir höfuðið.“

Hálftíma eftir að fyrirhuguð mótmæli hefjast hefst sem fyrr segir þingsetning með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Að henni lokinni ganga, samkvæmt dagskrá þingsins, „forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghússins“, þar sem forsetinn setur Alþingi. Þá mun strengjakvartett flytja tónlist.

Tilkynning samtakanna

Tilkynningin um mótmælin er svohljóðandi:

„Við mótmælum ofbeldisfullum útburði flóttafólks, þar sem fólki í mjög viðkvæmri stöðu, m.a. fórnarlömbum mansals og kynferðisofbeldis, er vísað allslausu á götuna, án fæðis, húsnæðis og aðgangi að heilbrigðisþjónustu.

Við mótmælum normalíseringu á því harðneskjulega og dystópíska samfélagi kúgunar þar sem sumt fólk á hvergi höfði sínu að halla, þurfi að hafast við allslaust á götunni, í rjóðrum, gjótum, án allra mannréttinda.

Við mótmælum rasískri kynþáttaaðskilnaðarstefnu íslenska ríkisins, þar sem valdafólk, blindað af hvítri yfirburðahyggju og forréttindum, þykist þess umkomið að úrskurða lifandi manneskjur ólöglegar, svelta þær til hlýðni og fangelsa vegna þess eins hvaðan þær eru komnar eða hverning þær eru á litinn. Engin manneskja er ólögleg!

Við mótmælum fasísku ríkisvaldi og hugmyndum dómsmálaráðherra um varðhald og fangelsun saklausra einstaklinga um óákveðinn tíma; fólks sem hefur það eitt til saka unnið að hafa þurft að flýja skelfileg örlög og eiga hvergi öruggt skjól. Þau hafa engan stað til að fara á!

Við mótmælum brottvísun barnafjölskyldna, þar sem miskunnarleysi yfirvalda virðir velferð barna og fjölskyldna þeirra að vettugi, sviptir þau mennskunni og vísar bjargarlausu á götuna annars staðar. Brottvísanir eru pyndingar!

Við mótmælum lögregluofbeldi þar sem flóttafólk er beitt hótunum, handtekið, áreitt eða vísar á götuna með ruddaskap og vopnavaldi. Niður með lögregluríkið Ísland!

Við mótmælum við setningu Alþingis, þriðjudaginn 12. september kl. 13:00! Sýnum þingmönnum og ráðherrum að við sættum okkur ekki við það ástand sem grimmilegar ákvarðanir þeirra hafa leitt af sér með setningu laga í vor, sem heimila að bjargarlausu fólki sé hent á götuna eins og hverju öðru rusli! Látum í okkur heyra og krefjumst þess að allar manneskjur séu frjálsar og hafi skjól yfir höfuðið.

Sýnum flóttafólki samstöðu og tökum undir kröfur þess! Engin manneskja er ólögleg! Engin eru frjáls, fyrr en öll eru frjáls!“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí