Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinsambandsins segist hafa skipt um skoðun í gjaldmiðlamálum, í grein sem hann birti á Facebook um hádegisbil í dag, föstudag.
„Eins og allir vita þá eru stýrivextir hér á landi 9,25% og verðbólgan 7,7% og erum við með langhæstu stýrivextina miðað við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við,“ skrifar Vilhjálmur. „Málið er að þetta er ekkert ný saga enda hafa neytendur, launafólk, fyrirtæki og heimilin búið við okurvexti um margra áratugaskeið. Heimilum þessa lands hefur verið misþyrmt í formi okurvaxta og verðtryggingar eins lengi og elstu menn muna. Ekki einni einustu þjóð hefur dottið til hugar að koma svona fram við þegna sína eins og gert hefur verið hér á landi þegar kemur t.d. að þeirri grunnþörf hverrar fjölskyldu að búa í öruggu húsnæði á viðráðanlegum kjörum.“
Þá spyr hann: „Hvað veldur því að hægt sé að taka óverðtryggt húsnæðislán á 2 til 5% föstum vöxtum til 30 ára eins og þekkist á Norðurlöndunum en ekki hér á landi?“
Krónan bitnar á heimilunum í formi okurvaxta, verðtryggingar og fákeppni
Vilhjálmur segist fúslega viðurkenna að hingað til hafi hann verið talsmaður íslensku krónunnar, „en nú hef ég skipt um skoðun enda kominn á endastöð með að verja krónuna enda er margt sem bendir til þess að þessi örmynt okkar eigi stóran þátt í þessum miklu efnahagslegu sveiflum. Sveiflum sem ætíð bitna á hinum almenna neytanda og heimilunum í formi okurvaxta, verðtryggingar og fákeppni á öllum sviðum.“
„Ég held að við séum komin á endastöð,“ skrifar Vilhálmur, „með íslensku krónuna sem kostar neytendur og heimilin um eða yfir 200 milljarða árlega.“ Hann nefnir að á Íslandi séu „margir gjaldmiðlar í gangi“, mörgum stórfyrirtækjum detti ekki í hug að gera upp í krónum „og gera því upp í erlendum gjaldmiðlum og hafa jú aðgengi að erlendu lánsfé á mun betri kjörum. Síðan er það verðtryggða krónan sem er jú einn sterkast gjaldmiðill í heimi en hann gagnast þeim efnameiri og fjármálakerfinu.“ Síðust í upptalningu Vilhálms er „íslenska krónan sem almenningi er gert að nota eingöngu og við þekkjum hvaða afleiðingar hún getur haft á neytendur og heimili.“
Erlenda, óháða aðila þurfi gegn sérhagsmunaöflum
Vilhjálmur segist telja að „að það eigi að fá erlenda óháða aðila til að kanna kosti og galla íslensku krónunnar sem og kanna kosti og galla þess að taka upp annan gjaldmiðil í stað íslensku krónunnar. Þar undir þyrftu að vera helstu gjaldmiðlar sem koma til greina svo sem evra, dollari, danska krónan með tengingu við evru, norska krónan eða hvaðeina sem þessum erlendu aðilum kæmi til hugar.“
„Þetta verða að vera erlendir óháðir aðilar,“ skrifar hann, „enda liggur fyrir að stór og sterk hagsmunaöfl reyna að koma í veg fyrir rétta niðurstöðu enda eru þeir að verja sína sérhagsmuni.“
Hann segist hafa lagt það til við Samtök atvinulífsins „hvort verkalýðshreyfingin og Samtök atvinnulífsins eigi að ráðast saman í það að finna virtan óháðan erlendan aðila til að gera slíka úttekt fyrir okkur.“ Gríðarlegir hagsmunir séu í húfi fyrir launafólk, neytendur og heimili „enda getum við ekki búið við gjaldmiðil sem kostar neytendur og heimilin yfir 200 milljarða á ári. Við getum ekki búið við okurvexti og verðtryggingu og algera fákeppni á öllum sviðum og því er svona úttekt nauðsynleg en hún þarf að vera eins og áður sagði gerð af erlendum óháðum aðilum til að verða marktæk.“
Víðtækur stuðningur innan verkalýðshreyfingarinnar
Vilhjálmur segir fulltrúa Samtaka atvinnulífsins ekki hafa veitt sér skýr svör við þessari hugmynd, en hann telji að „víðtækur stuðningur sé við hana innan verkalýðshreyfingarinnar enda tapar enginn á því að slík úttekt sé gerð á möguleikanum á því að taka upp nýjan gjaldmiðil.“
Greininni lýkur Vilhjálmur á þessum orðum: „Eitt er víst að það er ekki lengur hægt að horfa upp á afleiðingar af okurvöxtum, verðtryggingu og fákeppni sem bitnar ætíð á neytendum og heimilum þessa lands. Íslenskir neytendur og heimili þurfa að fá svör frá virtum erlendum óháðum aðilum hvort íslenska krónan sé sú sem veldur þessum þjáningum sem neytendur og heimili hafa þurft að þola um margra áratugaskeið.“