Hagstofa Íslands hefur gefið út þjóðhagsspá í ritröð sinni Hagtíðindum. Spáin tekur til áranna 2023 til 2029.
Útlit er fyrir að hagvöxtur verði 3,6% í ár. Gert er ráð fyrir að utanríkisviðskipti verði megindrifkraftur hagvaxtar á árinu en vægi innlendrar eftirspurnar verði minna en verið hefur undanfarin ár. Árið 2024 er reiknað með hægari umsvifum með minni vexti útflutnings og að hagkerfið vaxi um 2,1%. Óvissa ríkir um áhrif á spána vegna jarðhræringa á Reykjanesi síðustu daga.
Áætlað er að einkaneysla aukist um 1,7% í ár og 1,9% á næsta ári, m.a. vegna fleiri heildarvinnustunda. Útlit er fyrir að einkaneysla á mann dragist saman um 1,8% í ár og standi í stað á næsta ári. Reiknað er með að samneysla muni vaxa um 1,8% í ár og 1,6% á næsta ári.
Vísbendingar eru um hægari vöxt atvinnuvegafjárfestingar á næstunni en útlit er fyrir að atvinnuvegafjárfesting aukist um 1,7%. Árið 2024 er reiknað með 1,9% aukningu og vegur þar samdráttur í fjárfestingu skipa og flugvéla nokkuð þungt. Gert er ráð fyrir að atvinnuvegafjárfesting aukist um 3,6% árið 2025. Merki eru um að hægt hafi á umsvifum í byggingariðnaði undanfarna mánuði. Gert er ráð fyrir að íbúðafjárfesting dragist saman um 1,3% í ár og 4,2% á næsta ári en taki svo við sér síðar á spátímanum. Gert er ráð fyrir að fjárfesting hins opinbera dragist saman um 8,1% í ár einkum vegna samdráttar í fjárfestingu sveitarfélaga. Á næsta ári er gert ráð fyrir hóflegum vexti eða 0,5%.
Það hægir á vexti útflutnings og gert er ráð fyrir að hann verði liðlega 6% í ár en tæplega 4% á næsta ári. Á sama tíma og dregið hefur úr virkni hagkerfisins hefur hægt á vexti innflutnings. Talið er að hann muni aukast um 1,6% í ár en um 2% næsta ár. Reiknað er með afgangi á jöfnuði vöru- og þjónustuviðskipta við útlönd í ár og að hann fari vaxandi næstu ár.
Horfur eru á að verðbólga hjaðni hægt á næstu misserum. Í ár er reiknað með að vísitala neysluverðs hækki að meðaltali um 8,7% milli ára. Líkur eru á að verðbólga verði minni í helstu viðskiptaríkjum og með minnkandi hagvexti og minni spennu á vinnumarkaði er reiknað með að verðbólga hjaðni og verði um 5,6% árið 2024. Árið 2025 er reiknað með 3,6% verðbólgu en eftir það er gert ráð fyrir að verðbólga nálgist verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.
Horfur eru á að atvinnuleysi hafi náð lágmarki og verði að meðaltali 3,5% á árinu. Fólki á vinnufærum aldri hefur fjölgað hratt á árinu og heildarvinnustundir aukist. Á næsta ári er gert ráð fyrir að atvinnuleysi aukist og verði 4% að meðaltali samhliða minnkandi umsvifum í hagkerfinu. Horfur eru á að kaupmáttur miðað við launavísitölu aukist lítillega í ár eða um 0,9%. Óvissa ríkir um kjarasamninga á næsta ári en gert er ráð fyrir að kaupmáttur launavísitölu aukist um 1,1%.
Heimili hafa dregið úr lántökum sínum það sem af er ári og leitað í meira mæli í verðtryggða fjármögnun. Skuldir einkageirans eru sögulega lágar borið saman við verga landsframleiðslu og tekjur, auk þess sem vanskilahlutfall lána hjá innlánsstofnunum er með lægsta móti.
Hagstofan gaf síðast út þjóðhagsspá 30. júní og er næsta útgáfa fyrirhuguð í mars nk.
Frétt af vef Hagstofunnar