Laugarnesskóli er löngu sprunginn. Þar er allt of mikið af börnum. Skólastjórnendur, starfsfólk og foreldrar sendu út neyðarkall árið 2013 en síðan hefur ekkert gerst, ástandið aðeins versnað með þéttingu hverfisins.
Þetta kom fram í samtali við Sóleyju Kaldal, fjögurra barna móður í Laugarneshverfinu, við Rauða borðið í kvöld. Sóley sagði að borgaryfirvöld hefðu kastað fram ýmsum kostum til lausnar en að það væri löngu komin tími á að þau veldu einn kost og stæðu við hann.
Helst af öllu vill starfsfólk og foreldrar að byggt verði við skólann, segir Sóley. Hún segir að skólinn sé merkilegt samfélag, þar hafi mótast menning sem mikilvægt sé að vernda og efla. En ef borgaryfirvöld hafa aðrar hugmyndir þá verði þau að reyna að sannfæra fólkið í hverfinu.
Í viðtali við Sóleyju við Rauða borðið kemur fram að það er ekki bara Lauganesskóli sem er sprunginn heldur líka Laugarlækjaskóli, þar sem efri bekkir grunnskólans eru, það skortir aðstöðu til íþróttaiðkunar í hverfinu og leikskólarnir eru allt of litlir.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga