Reykjavíkurborg tilkynnir árangur sinn í því að veita börnum á biðlista fleiri leikskólapláss. Um er að ræða gámahús við hlið umferðargötu án merkjanlegs útivistarsvæðis.
Eins og margir hafa heyrt af endurtekið ríkir kreppa í leikskólamálum í borginni. Mikill skortur á plássum á leikskólum borgarinnar hefur þýtt það að hundruðir barna dúsa uppi á biðlista svo mánuðum skiptir.
Málið hefur gengið afar hægt í að leysa og var raunar það sem Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, lýsti sem mikilli eftirsjá sinni eftir stjórnartíð sína, að honum hafi ekki tekist að leysa þann mikla vanda.
Breytingar hafa verið gerðar á stofnunum og þeim umbreytt í leikskóla til að mæta þessari miklu þörf. Þannig er dæmi um það hvernig húsakynnum Vinnumálastofnunnar við hlið Kringlunnar var breytt í leikskóla, þó svo að foreldrar hafi lýst yfir áhyggjum af miklum áhrif svifryksmengunar á börnin þeirra. Enda situr útivistarlóðin þeirra beint við hlið Kringlumýrarbrautar.
Nú er þó botninum mögulega náð í þessari nýju tilkynningu Reykjavíkurborgar. Plássum verður loks útdeilt fyrir nýjan gámaleikskóla sem borgin hefur reist fyrir neðan Hallgrímskirkju. Áður var svæðið í raun bílastæði Tækniskólans, með smávegis grasbletti, en er nú hrátt og rykugt iðnaðarsvæði með nýmáluðum að utan flutningagámum.
Gámaskólinn á að hýsa allt að 75 börn og fyrstu 40 plássunum verður úthlutað um mánaðarmótin júlí-ágúst.
Myndirnar segja eiginlega þúsund orð eins og svo oft áður:
Vafalaust er þetta hugsað sem einhvers konar tímabundin lausn til að hýsa leikskólabörn á meðan að eðlilegir leikskólar eru byggðir.
Það er hins vegar alger áfellisdómur á stefnu borgarmeirihlutans, sem hefur verið linnulaust við völd í raun síðan frá borgarstjóratíð Jóns Gnarrs í samstarf við Dag og Samfylkinguna, að slíkum gríðarskorti hafi verið leyft að raungerast.
Krísan hefur verið rædd fram og til baka í þónokkur ár, en það er ekki fyrr en nú þegar loks er byrjað að fjölga plássum og þá er það ýmist gert í óhentugu húsnæði við hlið Kringlumýrarbrautar eða í bókstaflegri gámabyggð, sýnilega án eðlilegrar aðstöðu fyrir börnin til að leika sér og dafna.