Ríkisstjórnin hefur sammælst um aðgerðir í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, flóttafólks og innflytjenda.
Lögð verður áhersla á hagkvæmari og skilvirkari reglur og betri þjónustu og stuðlað að jöfnum tækifærum og bættri þátttöku innflytjenda í samfélaginu. Reynt verður að nýta mannauð betur, enda mörg dæmi um að innflytjendur sinni störfum í engu samræmi við menntunarstig. Þá verður lagt upp úr betri samræmingu og samhæfingu að því sem fram kemur í tilkynningu frá stjórnvöldum.
Aðgerðirnar eru sagðar byggja á umfangsmikilli vinnu og gagnaöflun sem hefur staðið yfir á annað ár. Stjórnvöld munu með áherslubreytingum draga úr útgjöldum og forgangsraða fjármunum betur. Horft er til breytinga sem orðið hafa á Norðulöndum.
Afgreiðslu á umsóknum sem ekki uppfylla skilyrði um vernd verður fækkað en skilvirkni aukin í afgreiðslu annarra umsókna. Með því staðhæfa stjórnvöld að peningar sparist til að auka íslenskukennslu og auka aðstoð við börn í skólum og stuðla að samfélagsfræðslu sem hjálpar fólki til virkrar þátttöku í íslensku samfélagi.
Meðal sérstakra breytinga eru að afgreiðslutími umsókna um alþjóðlega vernd verður styttur í 90 daga að meðaltali á hvoru stjórnsýslustigi um sig ef undan eru skildar umsóknir frá Venezuela.
„Miðað við það sem kemur fram í viðtölum við ráðherra í fjölmiðlum í dag sýnist mér ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, sem á að vera leidd af Vinstri grænum, vera búin að gera rasíska stefnu Sjálfstæðisflokksins í málefnum fólks á flótta algjörlega að sinni,“ segir Sema Erla Serdaroglu hjá Solaris í samtali við Samstöðina og gefur lítið fyrir sykurhúðaða framsetningu breytinganna sem í vændum eru.
„Stefnu sem felur í sér að reyna að halda flóttafólki sem mest frá Íslandi. Stefnu sem endurspeglar algjört siðferðislegt þrot Vinstri grænna,“ segir Sema.
Mynd: Askur Hrafn Hannesson