Evrópubúar hafa misst trúnna á að Úkraína geti haft betur gegn Rússlandi í stríðinu. Níu af hverjum tíu svöruðu því til í nýrri rannsókn að þeir teldu að ósigur Úkraínumanna væri vís.
Rannsóknin var gerð af hugveitunni ECFR sem rannsakar og fjallar um utanríkistengsl. Í henni kom fram að fæstir þátttakendur vildu að Rússar hefðu sigur en á sama tíma sæu þeir litlar líkur á úkraínskum sigri.
Rannsóknin náði til yfir 17 þúsund manns í tólf Evrópusambandsríkjum. Aðein 10 prósent þátttakenda töldu að úkraínskur sigur væri líklegast niðurstaðan á meðan að 20 prósent töldu líklegast að Rússar færu með sigur af hólmi. Hins vegar töldu 37 prósent þátttakenda að líklegasta niðurstaðan yrði að stríðsátökunum linnti með einhvers konar samkomulagi.
Í ríkjum sem þar sem stuðningur við Úkraínu hefur verið hvað mestur er fólk líka að missa móðinn. Aðeins 17 prósent Pólverja trúa á úkraínskan sigur á meðan 14 prósent hallast að sigri Rússa.
Þá er vaxanda vilji til þess að stjórnvöld Evrópusambandsríkja þrýsti á úkraínsk stjórnvöld að samþykkja friðarsamninga við Rússa. Alls telja 41 prósent það vænlega leið á meðan að 31 prósent vilja að Evrópuríkin standi við bakið á Úkraínu í baráttu við að endurheimta allt það landsvæði sem fallið hefur í hendur Rússa.
Þrátt fyrir þennan dvínandi stuðning færir hugveitan rök fyrir því að leiðtogar Evrópusambandsins eigi að halda áfram stuðningi við Úkraínu. Ákvarðanataka eigi ekki að taka mið af skoðanakönnunum.