„Hér fagna og faðmast fasteignaeigendur af létti vegna nýundirritaða kjarasamninga. Það leit út fyrir á tímabili og jafnvel krafa um að gætt væri að lífsskilyrðum leigjenda, en sem betur fer tókst fasteignaeigendum að sameinast um að setja slíkt til hliðar. Svo mikill léttir varð í herbúðum fasteignabraskara að bróðir fjármálaráðherra keypti samdægurs 50 íbúðir til að setja á leigumarkaðinn.“
Þetta segir Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Leigjendasamtakanna, á Facebook en hann hefur gagnrýnt harðlega nýundirritaðan kjarasamning fyrir að ganga allt of skammt fyrir alla leigjendur. Hann segir að hækkun húsaleigubóta gagnist mjög fáum og því mun stór hluti launafólks enn þurfa sjá eftir stórum hluta launa sinna fara beint til leigusala. Guðmundur Hrafn skrifar:
„70% félagsmanna Eflingar eru á leigumarkaði, þeir greiða 50-90% af ráðstöfunartekjum sínum í húsaleigu. Frá árinu 2011 hafa lífskjör þeirra orðið óbærilegri með hverju árinu án þess að nokkuð hafi verið gert til að draga úr átakanlegri tilveru þeirra. En vegna þess að sumir fasteignaeigendur hafa orðið fyrir forsendubresti og aukinni húsnæðisbyrði undanfarna 18 mánuði þá skyldu kjarasamningarnir snúast um að létta undir með þeim.“
Hann hvetur alla leigjendur til að hafna þessum kjarasamning. „Það er skömm að þessu og ég hvet alla launþega á leigumarkaði sem eru innan þeirra félaga og sambanda sem undirrituðu kjarasamninga á síðastliðinn fimmtudag til að hafna þeim í kosningu og þrýsta á forystu þeirra til krefjast raunverulegra úrræða fyrir leigjendur,“ segir Guðmundur Hrafn.