Ísraelar hafa fyrirskipað Palestínumönnum að yfirgefa hluta Rafahborgar á Gaza og virðast þær fyrirskipanir vera hluti af undirbúningi fyrir löngu boðaða árás Ísraelshers á borgina af landi. Vel á aðra milljón flóttafólks er í borginni.
Fyrirskipanirnar hafa verið sendar með textaskilaboðum á arabísku, í símtölum og með dreifibréfum. Er Palestínumönnum þar skipað að rýma borgina og koma sér á það sem Ísraelsher kýs að kalla „útfært mannúðarsvæði“ um 20 kílómetrum utan við borgina. Sjónarvottar segja að einhverjar palestínskar fjölskyldur hafi haldið af stað í köldu vorregninu út úr borginni.
Háttsettur Hamasliði, Sami Abu Zuhri, lýsti því við Reuters fréttastofuna að rýmingin væri hættuleg stigmögnun sem myndi hafa afleiðingar. Sagði hann að stjórnvöld í Bandaríkjunum, ásamt hernámsliði Ísraela, bæru ábyrgð á „þessum hryðjuverkum“.
Í yfirlýsingu frá Ísraelsher sagði að þeir hefðu hafið að hvetja íbúa Rafahborgar til að rýma borgina með takmörkuðum hætti. Engar upplýsingar voru gefnar um hvers vegna.
Umrædd svæði sem Ísraelar beina Palestínumönnum nú til eru þegar þétt setin og lítið eða ekkert pláss er til að bæta þar við fleiri íverutjöldum, að því er sjónarvottar hafa lýst.
UNRWA, Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna, segir að árás á borgina myndi verða hrikalegt áfáll fyrir þær 1,4 milljónir manns sem þar hafa leitað skjóls.