Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari stjórnar Eflingar og fyrrum formannsframbjóðandi þar, segist vilja forða Alþýðusambandinu og verkafólki frá forystu Ragnari Þór Ingólfssyni, Sólveigu Önnu Jónsdóttur og Vilhjálms Birgissonar og hefur því ákveðið að bjóða sig fram til forseta gegn Ragnari Þór. Drífa Snædal fagnar framboði Ólafar Helgu.
„Alþýðusamband Íslands er eitt það dýrmætasta sem launafólk á Íslandi á,“ segir Ólöf Helga í yfirlýsingu sinni. „Að setja það baráttulaust í hendur fólks sem lætur eigin valdahagsmuni ganga fyrir hagsmunum almenns félagsfólks væri ámælisvert. Ég hef því tekið þá ákvörðun að bjóða mig fram til forseta ASÍ á þingi sambandsins sem hefst nú á mánudag.“
Ólöf Helga bauð sig fram til formanns Eflingar snemma á þessu ári, fékk 38% atkvæða þegar Sólveig Anna Jónsdóttir var kjörinn sem formaður á ný. Ólöf Helga var ritari stjórnar en varð varaformaður þegar Sólveig Anna sagði af sér og Agnieszka Ewa Ziólkowska varaformaður tók við formennsku. Eftir endurkjör Sólveigar Önnu gegna þær tvær sömu stöðu og áður, Agnieszka Ewa er varaformaður og Ólöf Helga varaformaður. Kosið verður um þessar stöður í Eflingu eftir áramótin.
„Þetta finnst mér góðar fréttir,“ skrifar Drífa Snædal, fyrrum forseti ASÍ, á Facebook. „Ég kynnist Ólöfu Helgu þegar hún fékk það yfirþyrmandi verkefni að stýra Eflingu ásamt Agnieszku eftir afsögn formanns. Þar sem starfsfólki leið illa og félagið var klofið í átökum. Ég dáðist að yfirvegun hennar, greind og þeirri staðreynd að hún lét hvorki mig né nokkurn annan segja sér hvernig hlutirnir væru eða ættu að vera heldur aflaði sér gagna og nýtti eigin dómgreind til að komast að niðurstöðu. Heiðarleg, réttsýn, vinnusöm og hokin af reynslu sem verkakona og trúnaðarmaður á vinnustað. Það er eðlilegt að fulltrúar vinnandi fólks á þingi ASÍ hafi val um kosti og enn sýnir Ólöf Helga kjarkinn sem í henni býr með þessu framboði.“
Kjarninn greindi frá því í gær að Agnieszka Ewa og Ólöf Helga hefðu fengið aðgengi að pósthólfum Sólveigar Önnu og Viðars Þórsteinssonar, fyrrum framkvæmdastjóra Eflingar, með fulltingi lögfræðings aðalskrifstofu Alþýðusambandsins, einmitt á tímanum sem Drífa vísar til, þegar hún kynntist Ólöfu Helgu.
„Að vita til þess að óheftur aðgangur hafi verið veittur, án athugasemda, án nokkurs eftirlits og án vitneskju Sólveigar Önnu og Viðars, og í þann tíma sem um ræðir, sem náði fram yfir endurkjör hennar og þess dags sem hún tók við að nýju sem formaður Eflingar er hrikalegt. Og án nokkurs vafa glæpsamlegt,“ skrifar Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og mótframbjóðandi Ólafar Helgu til forseta ASÍ, á Facebook í morgun.
Í yfirlýsingu sinni lýsir Ólöf Helga þátttöku sinni í verkalýðsbaráttu, sem trúnaðarmaður hlaðmanna á Reykjavíkurflugvelli og sem stjórnarmaður í Eflingu. Hún sakar Sólveigu Önnu um að hafa hætt opinberum stuðningi við sig vegna pólitísk ágreinings.
„Nú vill Sólveig Anna, í valdabandalagi við Ragnar Þór Ingólfsson og Vilhjálm Birgisson, taka yfir Alþýðusamband Íslands,“ segir Ólöf Helga í yfirlýsingunni. „Í gegnum hópuppsagnir á skrifstofu Eflingar fórnuðu þau trúverðugleika verkalýðshreyfingarinnar og félagsfólki fyrir eigin valdahagsmuni. Óljóst er hvað þríeykið vill með sambandið. En það hefur komið skýrt fram að þau munu ekki hafa rúm fyrir aðrar skoðanir en sínar eigin og vilja stjórna í krafti meirihlutaræðis. Allir sem mótmæla þeim fá yfir sig fúkyrðaflaum – og þegar önnur sjónarmið eru sett fram er þeim mætt með hótunum og offorsi.“
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga