Ögmundur Jónasson skrifaði:
Ég er ábyrgur orða minna. Það er Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra einnig. En sá er munurinn á okkur að hún er í stöðu til að tala fyrir mína hönd en ég ekki fyrir hennar. Þess vegna kemur mér það við hvað hún segir.
Og nú segist forsætisráðherrann vilja setja 70 milljarða á ári hverju í hernaðarútgjöld Íslendinga. Undir blossaregni ljósmyndara í Brussel á fréttamannafundi með forstjóra NATÓ sagði hún Ísland vilja verja hin „sameiginlegu gildi“ og að „fyrsta varnarlína“ Íslands væri í Úkraínu. Látum að sinni liggja á milli hluta hvar sé vörn og hvar sé sókn. Þar eru línur ekki eins afdráttarlausar í mínum huga og lagsmannanna í NATÓ og er fyrir löngu tímabært að spyrja hvers vegna það hernaðarbandalag þurfti að þenja sig út þegar „óvinurinn“ var að skreppa saman.
En það eru meint „gildi“ forsætisráðherra Íslands og ráðamanna Vesturheims almennt sem mig langar til að fara nokkrum orðum um því hrokinn á þeim bæ keyrir nú svo úr hófi fram að hann gæti beinlínis orðið okkur öllum að falli enda segir í Orðskviðum að dramb sé falli næst, hroki viti á hrun.
Donald Trump minnir heiminn á það þessa dagana hve nýlenduhugsunin stendur nærri hjarta hans og er hann þar enginn eftirbátur gamalla og nýrra nýlenduherra Evrópu. En hið grátbroslega er að í Evrópu skuli býsnast yfir orðum hans: Hann vilji Grænland og því aðeins vilji hann styðja Úkraínu að bandarískir „athafnamenn“ fái þar frían aðgang að auðlindum.
En hvað skyldu þeir Evrópumenn sem nú býsnast hafa aðhafst sjálfir síðustu misseri og ár í þessu sama landi?
Úkraína hefur verið kölluð matarkista Evrópu með gjöfulli mold sinni til kornræktar. Eftir fall Sovétríkjanna var landinu skipt upp á milli milljóna bænda og var ætlunin að halda eignarhaldinu innanlands. Hins vegar fylgdu hernaðarstuðningi og lánveitingum til Úkraínu að vestan skilyrði um markaðsvæðingu efnahagskerfisins og þar með að rýmkuð yrði takmarkandi umgjörð um landbúnaðinn. Gegn þessu var mikil andstaða í Úkraínu en þær deilur sem þessu fylgdu þóttu aldrei áhugaverðar í vestrænum fjölmiðlum.
Ekki leið á löngu þar til að aðþrengdir bændur tóku lán. Þeim fylgdu veð og veðunum fylgdi síðan breytt eignarhald. Samkvæmt rannsóknarskýrslu Oakland-stofnunarinnar bandarísku er heimilisfesti tíu stærstu eignaraðila ræktarlands í Úkraínu þannig: tveir í Lúxemborg, þrír á Kýpur, tveir í Bandaríkjunum, einn í Hollandi, einn í Saudi-Arabíu og einn í Úkraínu sjálfri. Þessir eiga þegar þriðjunginn af ræktarlandi Úkraínu.
Augljóst er að eigendurnir, oligarkar og alls kyns fjárfestingarsjóðir, kjósa að eiga heima í skattaskjólum en þarna eru á ferðinni gammar sem jafnan flögra yfir svæðum sem lenda í þrengingum. Í Úkraínu eru þeir í boði Vesturlanda, ekki síst þeirra sem hneykslast yfir Trump sem er þegar allt kemur til alls bara reiður yfir að hafa ekki fengið meira, helst miklu meira!
Starmer hinn breski lýsti því kokhraustur yfir fyrir skömmu að Bretar hygðust bæta í við hernaðarstuðning sinn við Úkraínu. Þessu var ákaft fagnað þótt neðanmáls kæmi fram, eins og fyrri daginn, að stuðningurinn væri ekki óskilyrtur heldur lán – og að sá sem kæmi til með að borga væri Pútín og óligarkarnir, rússneskar eignir hvar sem til þeirra næðist myndu renna til vopnasalanna. Vitaskuld koma hvorki Pútin né rússneskir stórþjófar til með að borga herkostnaðinn, það gera milljarðamæringar aldrei, heldur rússneskur almenningur, óháð stjórnarfarinu í heimalandinu.
Evrópuálfan gaf heiminum svo ágengan iðnaðarkapítalisma að hann er á góðri leið með að granda þessum sama heimi. Hún stóð fyrir þrælahaldi og nýlenduarðráni um heimskringluna alla, efndi til tveggja heimsstyrjalda og ber ábyrgð á milljónamorðum í Helförinni, bjó til viðvarandi misskiptingu heima fyrir og teiknaði heimskort með reglustriku þar sem hagsmunir arðræningjanna einna voru hafðir í huga. Ekkert ríkjanna fyrir botni Miðjarðarhafs, svo dæmi sé tekið, var til fyrir rúmum hundrað árum – öll búin til í París og London. Þar var dregið upp heimskortið sem sundraði menningarheimum og bjó þannig til jarðveg ófriðar. Þetta var líka gert heimafyrir. Ítrekað hafa valdhafar endurteiknað landakort Evrópu, óháð vilja hins almenna íbúa á umdeildum landsvæðum.
Með þessa sögu að baki ber að fara varlega í tali um evrópsk gildi. Í Evrópu sem annars staðar hefur góð gildi vissulega verið að finna í tímans rás en þegar kemur að breytni valdamanna álfunnar fram á þennan dag ættu allir að gæta sín í yfirlýsingum. Líka Kristrún.
Og enn hef ég ekki minnst á þjóðarmorðið á Gaza-ströndinni þar sem fólk er myrt tugþúsundum saman með NATÓ vopnum.
Ísrael á rétt á tilveru sinni og hefur rétt til þess að verja sig segir NATÓ heimurinn einum rómi.
Það er ekki sagt í mínu nafni.
Ekkert ríki hefur tilverurétt óháð gjörðum sínum! Ekkert!
Það eina sem hefur ótvíræðan tilverurétt eru mannréttindi. Til þeirra gilda einna á Ísland að horfa á alþjóðavettvangi.
Svo skulum við gleyma þessum 70 milljörðum.
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 07/08.06.25.