Samstöðin mun hefja útsendingar í kvöld klukkan 19 á meðan Ríkissjónvarpið sendir út fótbolta. Útsendingin verður með breyttu sviði, farið verður yfir fréttir dagsins og síðan rætt um ýmislegt tengt þeim til klukkan 21 þegar fréttir hefjast á Ríkissjónvarpinu.
„Við fórum í sumarfrí eftir maraþonið um daginn þegar við sendum út tæplega 37 tíma þátt,“ segir Gunnar Smári Egilsson ritstjóri Samstöðvarinnar. „En við fengum áskoranir um að senda út þjóðmálaumræðu á meðan fótboltinn væri í Ríkissjónvarpinu og munum byrja í kvöld með Rauða borðið· Útsendingin verður á nýjum tíma, klukkan 19, en þá eru vanalegar sagðar fréttir á Ríkissjónvarpinu.
„Við ætlum að leika okkur aðeins með þetta, byrja á fréttayfirliti,“ segir Gunnar Smári. „Við höfum rætt um það okkar á milli að það vanti samhengi í fréttirnar. Við ætlum að reyna að finna það.“
Svona útsending verður frá mánudags- til fimmtudagskvöld fram til 24 júlí, þegar Ríkissjónvarpið byrjar aftur að segja fréttir klukkan 19.