Samkvæmt útreikningum Hagstofunnar dróst kaupmáttur heimilanna saman um 1,7 prósent í fyrra. Þetta gerðist þrátt fyrir að almennar launahækkanir í upphafi ársins og hagvaxtarauka í apríl, sem tilheyrðu lífskjarasamningunum, og samninga stærsta hluta félaga í Alþýðusambandinu undir lok ársins. Verðbólgan og vaxtahækkanir átu upp allan ávinning launafólks.
Og fram undan eru margir magrir mánuðir án launahækkana. Kjarasamningar opinberra starfsmanna munu lyfta upp meðaltali launatekna og þar með tekna heimilanna, en verðbólgan og vaxtakostnaður mun jafn harðan berja niður verðgildi teknanna.
1,7 prósent samdráttur í kaupmætti jafngildir því að hver landsmaður hafi tapað um 86 þús. kr. af verðmæti tekna sinna í fyrra. Þá voru ráðstöfunartekjur á mann rúmlega 412 þús. kr. á mánuði. Svo hægt væri að kaupa jafn mikið fyrir þessar meðaltekjur og árið 2021 hefðu tekjur á mann þurft að vera tæplega 420 þús. kr. Það vantar rúmar sjö þúsund krónur í veskið í hverjum mánuði.
Og hvert fara þær krónur? Þær fara til þeirra sem þið kaupið af vöru og þjónustu, bankanna sem þið borgið vextina.
Í tilkynningu Hagstofunnar er birt graf sem sýnir hvernig kaupmáttur heimilanna hefur breyst undanfarin tuttugu ár:
Þarna sést vel hversu heiftarlegt kaupmáttartap almennings var í kjölfar fjármálahrunsins 2008. Í dag er kaupmátturinn aðeins 4,2 prósent hærri en hann var 2007, fimmtán árum síðar.
Frá 2007 hefur hagvöxtur á mann aukist um 4,1%, farið í gegnum tvær dýfur: Hrunið og cóvid. En það er forvitnilegt að bera þetta tvennt saman yfir tímabilið frá Hruni:
Á þessu grafi sést hvað kaupmáttur heimila dróst mikið meira saman en hagvöxturinn á árunum eftir Hrun. Almenningur borgaði fyrir Hrunið. Og það voru ekki almennar kjarabætur sem færði kauðmátt heimilanna svo kaupmátturinn hitti hagvöxtinn. Það var hagvöxturinn sem féll í cóvid á sama tíma og enn voru eftir hækkanir í nokkuð afturbyggðum lífskjarasamningi.
Fram undan er tími án launahækkana þrátt fyrir mikla verðbólgu en á sama tíma er spáð nokkrum hagvexti. Línurnar tvær munu því skiljast aftur, rauð lína hagvaxtarins mun rísa á sama tíma og blá lína kaupmáttar mun síga.
Og þegar línurnar skiljast þá flytjast verðmæti frá launafólki til eigenda fyrirtækja og fjármagns. Við erum á slíku tímabili.