Leigjendasamtökin hafa óska eftir viðræðum við stjórn Heimstaden um kaup á 1700 íbúðum félagsins svo þau geti áfram verið í útleigu og leigjendur þeirra endi ekki á götunni.
Þetta kemur fram í tilkyningu frá samtökunum. Jafnframt að þau óski eftir viðræðum við fjármálaráðuneytið og stjórn ÍL-sjóðs um fjármögnun kaupanna við stærstu lífeyrissjóði um fjármögnun. Einnig óska samtökin eftir aðkomu innviðaráðuneytis og dómsmálaráðuneytis um nauðsynlegar lagabreytingar er snúa að stofnun og rekstri samvinnufélags leigjenda.
„Leigjendasamtökin telja að nokkur magnafsláttur verði á umsömdu kaupverði þar sem Heimstaden spari sér langt söluferli á 1700 íbúðum,“ segir í yfirlýsingunni. „Samtökin reikna með góðum lánskjörum, enda vart hægt að finna betra veð fyrir langtímaláni en í 1700 íbúðum sem allar eru í útleigu.“
Hugmynd Leigjendasamtakanna er að nýtt samvinnufélag leigjenda verði kaupandi og eigandi, félag sem hefur það markmið að leigja út á kostnaðarverði og tryggja leigjendum öryggi og langtímasamninga. Einnig að leigjendur sjálfir séu í stjórn rekstrarfélagsins og móti stefnu þess og markmið. Þannig megi stuðla að lækkun húsaleigu og auknu húsnæðisöryggi fyrir leigjendur.
„Leigjendasamtökin telja að stjórnvöld geti mætt þessum 1700 fjölskyldum og öðrum leigjendum með því að fjármagna þessi kaup, segir í tilkynningu samtakanna. „Skaðinn af því að allar þessar fjölskyldur missi húsnæði sitt yrði hryllilegur. Sala Heimstaden á þessum íbúðum út af leigumarkaði mun einnig valda kreppu á leigumarkaði sem mun skrúfa upp leiguverð og grafa undan lífskjörum þúsunda fjölskyldna.
Hér er því yfirvofandi neyðarástand sem bregðast verður við af ábyrgð. Tilboð Leigjendasamtakanna kallar eftir þeirri ábyrgð hjá eigendum og stjórn Heimstaden, hjá ráðherrum ríkisstjórnar og stjórnum lífseyrissjóðanna. Það þarf að koma í veg fyrir áfallið. Hugmyndir Leigjendasamtakanna eru tilboð um það.“
Myndin er af heimasíðu Heimstaden á Íslandi.