Samgönguráðherra Frakklands kallaði á miðvikudag eftir því að sett verði lágmarksviðmið fyrir flugfargjöld innan Evrópusambandsins, til að draga úr útblæstri og vinna þannig gegn hnatthlýnun.
Ráðherrann, Clement Beaune, greindi frá þessum áformum sínum í viðtali við vikublaðið L’Obs. Hann sagðist hafa í hyggju að leggja fram tillögu um málið við samgönguráðherra annarra Evrópuríkja á næstu dögum.
„Flugmiðar fyrir tíu evrur þegar við erum í miðjum umhleypingum vistkerfisins, það er ekki lengur hægt,“ sagði Beaune. „Það endurspeglar ekki kostnaðinn fyrir þessa plánetu,“ bætti hann við.
Lág-fargjalda flugfélög hafa nú um langa hríð boðið afar lág verð á ákveðnum flugleiðum og öðlast þannig verulegan skerf í samgönguiðnaði álfunnar. Gjöldin svara ekki í öllum tilfellum kostnaði. Á sama tíma er útblástur hverrar flugferðar umtalsvert meiri en ef ferðast væri með lest.
„Ég leitast opinskátt eftir því að mengandi athafnir verði skattlagðar, til að fjárfesta í umskiptunum,“ sagði Beaune. Hann sagði að áformuð skattahækkun á flugferðir frá Frakklandi yrði nýtt til að fjármagna uppbyggingu á lestarsamgöngum. Euractiv greindi frá.