Formaður Blaðamannafélagsins breytti færslu til að bera blak af samstarfsmanni sínum

Fjölmiðlar 30. apr 2024

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, breytti færslu sinni á Facebook þar sem hún gagnrýndi Ríkisútvarpið og einnig Ingólf Bjarna Sigfússon sökum framkomu við Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur fréttamann. Sigríður Dögg, sem einnig er starfsmaður RÚV þó í leyfi sé, bætti við færsluna lofi um samstarfsmann sinn Ingólf Bjarna, sem hún hafði þó áður sagt að hefði talað til undirmanns síns, Maríu Sigrúnar, af lítilsvirðingu. Sigríður Dögg var einnig um tíma í ritstjórn Kveiks.

Svo sem greint hefur verið frá var María Sigrún látin fara úr fréttaskýringaþættinum Kveik og þá var umfjöllun sem hún hafði unnið að ekki tekin til sýninga í síðasta þætti vetrarins. Ástæðurnar voru sagðar þær að hún væri ekki fullbúin. María Sigrún greindi frá því að hún hefði skilað fyrstu drögum að umfjölluninni tólf dögum fyrir áætlaða birtingu og ætla mætti að nægur tími hefði verið fyrir vel mannað teymi Kveiks til að klára þá umfjöllun, ef vilji hefði verið fyrir hendi. 

Samnkvæmt frétt Vísis, sem greindi fyrst frá málinu, mun Ingólfur Bjarni ritstjóri Kveiks hafa sagt „eitthvað á þá leið að hæfileikar hennar lægju ekki á sviði rannsóknarblaðamennsku, en hún væri frábær fréttalesari,“ svo vitnað sé í frétt miðilsins. 

Sigríður Dögg birti færslu sína í gærkvöldi, um klukkan 21:00. Á breytingasögu færslunnar má sjá að hún bætti umræddu lofi við um það bil klukkutíma og korteri síðar. Þá þegar höfðu verið sagðar fréttir af færslu Sigríðar Daggar. 

Í upphaflegu færslunni skrifaði Sigríður Dögg að Ríkisútvarpið ætti ekki „að láta það óátalið að yfirmaður tali til undirmanns síns af lítilsvirðingu gagnvart konum, miðað við þá upplifun sem María Sigrún Hilmarsdóttir hefur lýst opinberlega síðustu daga. Þá skiptir engu máli hver ástæðan fyrir ágreiningnum er. Ekki aðeins er RÚV stærsti fjölmiðill landsins, heldur er hann í ríkiseigu, og á að vera til fyrirmyndar – og lítilsvirðing gagnvart konum á ekki að líðast, hvorki þar né annars staðar.

[…]

Við, sem samfélag, megum aldrei hætta að benda á það sem gera má betur. RÚV – gerið betur.“

Breytingin sem Sigríður Dögg gerði á færslunni var á þá lund að hún þekkti Ingólf Bjarna af góðu einu „og veit að hann er vandaður og heiðarlegur fagmaður.“ Þá bætti hún enn fremur við að allar vangaveltur í fjölmiðlum um að umfjöllun Maríu Sigrúnar „hafi verið tekin úr birtingu af einhverjum annarlegum hvötum standast enga skoðun“. Umfjöllunin var raunar ekki tekin úr birtingu heldur var ákveðið að hún myndi ekki birtast. Er Sigríður hér væntanlega að vísa til þess að DV greindi frá því að umfjöllun Maríu Sigrúnar hefði snúið að meintum gjafagjörningi borgarstjóra á lóðum til olíufélaga. Í umfjöllun DV var því hins vegar ekki haldið fram að umfjöllunin hefði verið stöðvuð af annarlegum hvötum. 

Til hvers Sigríður Dögg er að vísa er því ekki alveg ljóst, en hún segir í viðbótinni við færsluna að oft komi fram að ritsjórar meti umfjallanir þannig að þær þurfi að vinna meira. Leitt sé að sjá „andstæðinga RÚV stökkva á tækifærið til að grafa undan fréttastofunni og þeim sem þar vinna, sem ég veit af eigin raun að gera það af heiðarleika og metnaði“.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí