Sigur Farage og breska öfgahægrisins

Kosningadagur er í Bretlandi í dag og ljóst að miklar breytingar á flokkahlutföllum eru í vændum. Það gæti þó vel verið að breytingarnar endi þar.

Verkamannaflokkurinn undir Keir Starmer stefnir í stórsigur vegna tómsins sem Íhaldsflokkur Rishi Sunak skilur eftir sig, en staða Íhaldsins er svo slæm að flokkurinn gæti tæknilega séð þurrkast út af þingi, þó ólíklegt sé.

Það er þó morgunljóst að Starmer mun taka við sem forsætisráðherra að kosningunum loknum, en síður ljóst hvað hann muni í ósköpunum gera fyrir breskt samfélag.

Hvað stendur Starmer fyrir?

Starmer er sjarmalaust ólíkindatól hvað það varðar að fáir virðast raunverulega spenntir fyrir honum persónulega en hann er þó fyllilega viljugur til að bregða sér í hvaða líki sem hann telur líklegt til að skila sér sigri. Hann hefur ítrekað gengið á bak orða sinna og þykist til dæmis nú aldrei hafa stutt Jeremy Corbyn, fyrrum leiðtoga Verkamannaflokksins, þrátt fyrir að hafa háð kosningabaráttu undir merkjum Corbyn og stutt hann með orðum, ráðum og dáðum.

Corbyn hefur verið úthýst úr nýja Verkamannaflokki Starmers og er í sjálfstæðu framboði til þings, en keppinautur hans fyrir Verkamannaflokkinn, Praful Nargund, er milljónamæringur sem mokaði inn sínum auð í gegnum einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu.

Fleiri þingmenn Verkamannaflokksins sem hallast til vinstri hefur verið úthýst, einna helst og fremst Diane Abbott, sem þjónað hefur almenningi í Bretlandi í áraraðir en var bolað út af klíku Starmers. Alger hreinsun á stuðningsfólki Corbyns hefur verið eitt af meginmarkmiðum Starmers raunar í pólitíkinni frá því að hann tók við sem leiðtogi flokksins.

Sem segir margt, því ekki hefur farið mikið fyrir hugmyndafræðilegri baráttu eða einhvers konar stefnu um hvers konar samfélag Starmer vill að Bretland sé. Miklu frekar hefur hann eytt tíma sínum sem leiðtogi stjórnarandstöðunnar í að tryggja ítök sín og völd með því að færa flokkinn kirfilega hægra megin við miðju með loforðum sem miða einungis að því að auka efnahagslega velsæld. Starmer hefur yfirgefið gömul stefnumál og loforð flokksins eins og velferðarmál og lækkun skólagjalda, en virðist staðráðinn í því að einblína á hagvöxt og hag fyrirtækja.

Þröngt setið á hægri vængnum

Á hægri væng breskra stjórnmála er því þröngt setið um þessar mundir. Íhaldsflokkurinn hefur skroppið heiftarlega saman í könnunum en það er ekki svo að Verkamannaflokkurinn hafi hirt þau atkvæði, heldur hafa þau mestmegnis farið yfir á öfgaflokk Nigel Farage, Umbótaflokk Bretlands, ásamt því að bætast að einhverju leyti við fylgi frjálslyndra demókrata.

Sigur Verkamannaflokksins er því í raun það tóm sem hefur myndast með tapi Íhaldsflokksins og gífurlegri aukningu á fylgi Umbótaflokksins. Í þingkosningunum 2019 fékk Íhaldsflokkurinn undir Boris Johnson 43,6% á öldu útlendingaandúðar. Verkamannaflokkur Corbyns fékk þá 32,1%.

Staðan í könnunum aftur til 2021

Fylgistap Íhaldsflokksins byrjaði nánast samstundis eftir kosningarnar, en féll áfram stöðugt í Covid, einna helst vegna endalausra hneykslismála ríkisstjórnar Johnsons í faraldrinum, sem og Johnsons sjálfs. Verkamannaflokkurinn jókst í fylgi statt og stöðugt á sama tíma eins og vill vera í tveggja flokka kerfi eins og er að mestu í Bretlandi.

Stóra stökkið upp á við fyrir Verkamannaflokkinn og samsvarandi hyldýpi falls Íhaldsflokksins hófst þó fyrir alvöru eftir viðburðaríka en skamma tíð Liz Truss í embætti forsætisráðherra, þegar henni tókst á undarvert skömmum tíma að knésetja efnahaginn með villtum nýfrjálshyggjuhugmyndum sínum. Flokkurinn hefur síðan aldrei náð sér á strik undir forystu Sunak.

Verkamannaflokkurinn fór þá með hæstu hæðum í könnunum við endalok leiðtogatíðar Truss, með rúm 50% og Íhaldsflokkurinn hrundi í rétt rúmlega 20%.

Nigel Farage

Hinn raunverulegi sigurvegari er Nigel Farage

Það sem villir þó fyrir allar götur síðan, í umfjöllun fjölmiðla um stöðuna í Bretlandi er að góðu gengi Verkamannaflokksins er oft hampað sem aðalmálinu. En frá því að Sunak tók við embætti forsætisráðherra hefur Verkamannaflokkurinn statt og stöðugt minnkað í fylgi og stendur núna í um það bil 40%, sem er minna fylgi en Boris Johnson hafði árið 2019 og í raun sama fylgi og Corbyn hlaut árið 2015, í þingkosningunum þá.

Það markverða sem breyst hefur er tilkoma Umbótaflokksins. Sá flokkur hefur farið frá um 3% fylgi á tíma hneisustjórnar Liz Truss, yfir í 16-17% núna á kosningadag og hefur í sumum könnunum farið ofar Íhaldsflokknum, sem eru söguleg tíðindi. Íhaldið stendur fast í rúmum 20% og Sunak hefur ekkert tekist að hífa það fylgi upp. Bæði Íhaldið og Verkamannaflokkurinn hafa tekið dýfu dagana fyrir kosningar, en Umbótaflokkurinn hins vegar verið á stöðugri uppleið.

Nigel Farage eins og margir muna eftir var leiðtogi UKIP, United Kingdom Independence Party, sem var flokkurinn sem ógnaði stöðu David Camerons um tíð með miklu fylgi sínu. UKIP hafði útlendingaandúð og allskyns öfgahægri popúlisma á stefnuskrá sinni en einna helst hafði sá flokkur eitt baráttumál og það var að draga Bretland út úr Evrópusambandinu. Cameron, þáverandi forsætisráðherra Íhaldsflokksins, varð svo skelkaður vegna fylgisaukningar UKIP að hann boðaði til hinna alræmdu Brexit-kosninga, sem hann tapaði og afleiðinganna er enn að gæta fyrir breskt samfélag.

Farage tók sér pásu frá pólitík í millitíðinni og varð einhvers konar hallærisleg bresk útgáfa af Fox News áróðurspopúlista fyrir hægrið, með þáttum á öfgafjölmiðlinum GB News. Meðal rómaðra gesta Farage í þætti sínum þar var Sigmundur Davíð, sem nýtti tækifærið til að toppa Farage í grimmd þegar hann stakk upp á að flóttafólki sem kæmi yfir Ermarsundið frá Frakklandi á bátum yrði gefin vatnsflaska og svo hent aftur til baka út á haf. Farage hló dátt að uppástungu Sigmundar.

Farage var fenginn til að leiða Umbótaflokkinn núna stuttu fyrir kosningar, enda flokkurinn örsmátt furðufyrirbæri annars og Farage með góða reynslu af því að nota popúlíska orðræðu til að fleyta fylginu upp. Það hefur tekist vel upp með grimmilega útlendingaandúð að vopni og klisjukennd loforð um að sjá um breskt fólk fyrst, sem öllum ætti að vera ljóst að Farage mun aldrei gera, enda öfgahægrisinnaður auðmaður. Breska útgáfan af Sigmundi Davíð.

Mun Starmer hjakka í hjólförum Macrons?

Það er því gott að hafa það í huga að þegar að Starmer er lýst sigri í kvöld þá er ekki um sigur Verkamannaflokksins að ræða nema að mjög takmörkuðu leyti. Starmer hefur notið hneisunnar sem var Johnson á Covid-tímanum, algers skipbrots Liz Truss og getuleysis Sunaks, en samt hefur flokkur hans minnkað í fylgi því nær sem dregur kosningunum. Starmer mun samt hljóta ofurmeirihluta á þingi og það er vegna hvarfs Íhaldsflokksins, sem er einungis vegna vinsælda öfgaflokks Farage.

Vandinn verður þegar að nýfrjálshyggjustefna Starmers, með vinalegra yfirbragði, hlýtur einnig skipbrot á endanum og breskir kjósendur snúa sér að fullri alvöru að ómannúðlegum og hatursfullum öfgum Umbótaflokksins, rétt eins og franskir kjósendur hafa gert gagnvart Macron og Le Pen. Samfylkingin á Íslandi ætti að huga að því sama, að ganga ekki sama veg, því annars endar Ísland aftur með popúlisma Sigmundar Davíðs við stjórnvölinn.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí