Viðar Þorsteinsson verkalýðsleiðtogi segir að öllu sé snúð á haus hér á landi í umræðu um útlendingamál.
Lúsleitað sé að tengingum fólks við Hamas. Þeir sem styðji Ísrael sleppi aftur á móti við skoðun. Þetta kemur fram í færslu frá Viðari á samfélagsmiðlum.
Viðar deilir frétt á Vísi þar sem segir að Útlendingastofnun búi ekki yfir gögnum sem gefi til kynna að þeir sem fengu dvalarleyfi hér á grundvelli fjölskyldusameiningar Palestínumanna síðustu misseri hafi tengsl við Hamas-samtökin.
„Við lifum í heimi þar sem öllu er snúið á haus,“ segir Viðar um það. „Það er talið vera einhvers konar glæpur að Palestínumenn hafi „tengsl við Hamas“ sem eru stærsti stjórnmálaflokkur Palestínu, unnu meðal annars þingkosningarnar 2006 og fara með rekstur allra opinberra stofnana á Gaza. Að sjálfsögðu hafa fjölmargir Palestínumenn „tengsl við Hamas“ og skulda engum skýringar á því, allra síst einhverjum kjánum á Íslandi.“
Nær væri að skoða tengsl og stuðning fólks hér á landi við ríkið sem er að framkvæma þjóðarmorð að mati Viðars.
„En þetta leiðir hugann að því hvers vegna er ekki spurt um tengsl hérlendra einstaklinga við Ísraelsríki og hvers vegna eru þau ekki rannsökuð? Það er með öllu óskiljanlegt. Ísrael er hryðjuverkaríki, blóðugt upp fyrir axlir í miðju þjóðarmorði sem mun fara í sögubækurnar sem einn stærsti glæpur okkar samtíma.“