Blóðugur september í kauphöllinni

Kauphöllin 28. sep 2022

Verð hlutabréfa heldur áfram að falla á Íslandi. Í þessari viku hefur verðmæti félaga í kauphöll fallið um 91,7 milljarð króna. Það leggst ofan á lækkun upp á 207,1 milljarð króna í síðustu viku. Samanlagt hefur verðmæti félaganna í kauphöll því fallið um 298,9 milljarða króna á tveimur vikum.

Fögnuðurinn yfir að Ísland hafi verið skilgreint af matsfyrirtækjum sem annars flokks nýmarkaðsríki hefur breyst í örvæntingu. Reiknað hafði verið með að þessi skilgreining myndi ýta undir verð hlutabréfa. En kannski einmitt vegna þessa, að allir reiknuðu með hækkun og margir ætluðu að græða á henni, framkallaði breytingin lækkun. Sem ekki sér fyrir endann á. Kauphöllin er í spíral niður á við.

Lækkunin í þessari viku er orðin 4,4% sem bætist ofan á 9% lækkun vikuna þar á undan. Lækkun hlutabréfa frá 12. september er orðin 13%.

Skýringin á þessari lækkun er ekki alfarið mislukkað brask með bréf vegna fyrirséðrar innkomu svokallaðra index-sjóða á markaðinn, sjóða sem kaupa bréf í öllum félögum í hlutfalli við stærð þeirra á markaði. Frá 12. september hefur Dow Jones-vísitalan í Bandaríkjunum fallið um 10%, DAX-vísitalan í Þýskalandi um 10% líka, en FTSE-vísitalan í Bretlandi hefur fallið um 13%, eins og sú íslenska.

Bretland skelfur nú í kjölfar tilkynninga ríkisstjórnar Liz Truss um skattalækkanir til hinna ríku og mikinn fjárlagahalla sem verður fjármagnaður með dýrari lánum. Íslenska kauphöllin lætur eins og ástandið á Íslandi sé svipað.

Hér má sjá breytinguna á verðmæti fyrirtækjanna í kauphöll frá 12. september. Hlutfallslega hefur Kvika banki lækkað mest, um 18,6%, en mest verðmæti hafa gufað upp hjá hluthöfum Marel, 74,8 milljarðar króna.

FélagLækkun %Lækkun m.kr.
Kvika banki-18,6%19.419 m.kr.
Marel-17,8%74.788 m.kr.
Sjóvá-Almennar tryggingar-17,5%7.779 m.kr.
Eimskiparfélag Íslands-16,9%17.305 m.kr.
Iceland Seafood International-16,3%4.072 m.kr.
Vátryggingarfélag Íslands-15,1%5.075 m.kr.
Reitir fasteignafélag-14,1%10.684 m.kr.
Origo-14,0%4.350 m.kr.
Arion banki-13,7%37.750 m.kr.
Festi-13,3%9.063 m.kr.
Icelandair group-13,3%10.856 m.kr.
Íslandsbanki-12,4%33.600 m.kr.
Eik fasteignafélag-12,3%5.821 m.kr.
Reginn-11,4%6.563 m.kr.
Brim-10,6%19.560 m.kr.
Skel fjárfestingarfélag-10,3%3.485 m.kr.
Nova klúbburinn-9,0%1.527 m.kr.
Síldarvinnslan-8,1%17.000 m.kr.
Hagar-6,8%5.663 m.kr.
Sýn-6,3%1.074 m.kr.
Ölgerðin Egill Skallgrímsson-4,0%1.263 m.kr.
Síminn-2,7%2.190 m.kr.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí