Ef orðatiltækið „eins dauði er annars brauð“ hefði ekki orðið til í kringum presta og stólaskipti þeirra, þá hefði hlutabréfamarkaðurinn fundið það upp, ekki seinna en í heimsfaraldrinum. Þegar faraldurinn stóð sem hæst og stjórnvöld um allan heim höfðu áhyggjur, ekki bara af veikindum og dauða heldur af því sem á köflum virtust lömuð samfélög og laskað atvinnulíf, risu hlutabréf í fjölda fyrirtækja – þar á meðal, auðvitað, lyfjafyrirtækja. Nú er öldin önnur. Í lok síðustu viku birti lyfjaframleiðandinn Pfizer uppfærða afkomuspá fyrir árið, þar sem fyrirtækið segist sjá fram á lægri veltu en áður var ætlað, svo nemur 9 milljörðum dala frá fyrri spá. Lækkunin jafngildir um 1.250 milljörðum íslenskra króna, eða tæpum þriðjungi af fjárlögum íslenska ríkisins á þessu ári. Ástæðan er aðeins ein, að sögn stjórnenda: dvínandi eftirspurn eftir bóluefnum og lyfjum gegn Covid-19.
Sala bóluefnis Pfizers á við tvenn íslensk fjárlög
Pfizer framleiðir ekki aðeins bóluefnið Comirnaty, sem hér á landi er þó oftast einfaldlega vísað til sem Pfizer-bóluefnisins, heldur einnig veirulyfið Paxlovid, sem þróað var til meðferðar á Covid-19 eftir sýkingu. Fyrirtækið segist nú hafa afskrifað lager þessara tveggja vörutegunda að andvirði 5,5 milljarða dala, í ljósi dvínandi eftirspurnar. Það gerir ráð fyrir að sala bóluefnisins á þessu ári dragist saman úr 61 milljarði dala í 58 milljarða – sem eru þó ríflega 8.000 milljarðar íslenskra króna, eða á við ríflega tvenn fjárlög Íslands á þessu ári. Fyrirséð sala á lyfinu Paxlovid hefur dregist enn meira saman, eða um 7 milljarða dala.
Fréttamiðillinn CNBC vitnar í forstjóra fyrirtækisins, Albert Bourla, sem sagði á mánudag: „Við erum í miðri Covid-þreytunni. Enginn vill tala um Covid. Við erum með fullt af tali gegn bóluefnum.“ Hann bætti því við að þau sem sækjast eftir bóluefnum og meðferðarúrræðum um þessar mundir sé það fólk „sem trúir á gildi varnar og mun halda því áfram um ókomin ár.“
Í umfjöllun miðilsins er þess einnig getið að færri sjúklingar sækist eftir meðferð við Covid nú en við upphaf heimsfaraldursins, þar sem bólusetningar og fyrri smit gera sýkingar nú í mörgum tilfellum vægari en áður.
Ráðgjafi býst við „massífri uppsveiflu“ í vetur
Í umfjöllun Investors.com um þennan samdrátt í eftirspurn er vitnað í greinandann Dainu Graybosch við fjárfestingarbankann Leerink Partners, sem segist búast við „massífri uppsveiflu í eftirspurn“ eftir bæði bóluefninu og lyfinu síðar á þessu ári. „Við gerum líka ráð fyrir uppsveiflum í SARS-CoV-2 sýkingum (veirunni sem veldur Covid) þegar við stefnum inn í veturinn og jólavertíðin gæti aukið eftirspurnina,“ sagði hún í minnisblaði til viðskiptavina bankans.
Um leið tilkynnti Pfizer um drög að nýju samkomulagi við bandarísk stjórnvöld um veirulyfið, sem gert er ráð fyrir að fari í almenna sölu árið 2024, en hingað til hefur það aðeins verið fáanlegt í samræmi við forgangsröðun stjórnvalda. Greinandinn Umer Raffat, við ráðgjafarfyrirtækið Evercore ISI, segir mögulegt að lyfið, sem bandarísk stjórnvöld keyptu fyrir 500 dali, hvern meðferðarskammt, gæti hækkað í verði þrefalt, jafnvel fimmfalt, á almennum markaði, og aukið hagnað fyrirtækisins af lyfinu til samræmis við það.
Verð hlutabréfa í Pfizer féll á föstudag, eftir að afkomuspáin birtist, en tók aftur að rísa á mánudag, þegar stjórnendur fyrirtækisins höfðu gert fjárfestum grein fyrir viðbrögðum sínum og áætlunum og sefað áhyggjur þeirra. Verð annarra fyrirtækja á sama markaði, Moderna og Novavax, féll hins vegar um 6–6,5 prósent á mánudag. Greinendur rekja fallið til afkomuspár Pfizers: fjárfestar geri ráð fyrir að dvínandi eftirspurn hafi svipuð áhrif fyrir önnur fyrirtæki á markaðnum, sem enn hafa þó ekki gert fjárfestum grein fyrir hvernig þau muni bregðast við.