Franski sjóðurinn Ardian hefur greitt Símanum allt söluverðið fyrir Mílu, 32,7 milljarða króna í reiðufé og 17,5 milljarða króna í skuldabréfum til næstu þriggja ára. 31,7 milljarðar af peningunum fara beint til eigenda Símans í anda stefnu fyrirtækisins, sem er að eigendur dragi til sín öll verðmæti félagsins með arðgreiðslum eða kaupum á eigin bréfum.
Í tilkynningu Símans til kauphallar kemur fram stjórnendur fyrirtækisins sé að kanna leiðir til að selja skuldabréfin líka, svo hægt sé að færa sem mest af fé sem fyrst til eigendanna.
Síminn hefur verið í forystu félaga í kauphöllinni við að færa sem mest af eignum og fé fyrirtækjanna til eigenda sinna. Í fyrra greiddu eigendur hlutabréfa í kauphöllinni sér arð eða létu félögin kaupa eigin bréf, sem segja má að sé ígildi arðgreiðslna, upp á um 136,5 milljarða króna. Þetta var um 80% af hagnaði félagana. Aðeins 20% hagnaðarins varð eftir í félögunum til að nýrra fjárfestinga eða styrkingar þeirra.
Í ár hafa þessar arðgreiðslur aukist enn og greiðslan til eigenda Símans nú mun enn hækka hana. Það er því nóg til í þessum fyrirtækjum, svo vitnað sé til slagorðs Alþýðusambandsins, nóg til fyrir eigendurna þó þeir segi að ekki sé mikið til fyrir starfsfólkið.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga