Mick Lynch, formaður félags járnbrautastarfsmanna, sagðist ekki hafa sungið með þegar landsþing Verkamannaflokksins brast í þjóðsönginn, God Save the King. Lynch sagði þetta hluta af tilraunum forystu flokksins til að ná til ímyndaðrar miðju Englands. Sjálfur sagðist hann heldur vilja sjá Verkamannaflokk sem tæki upp kröfur almennings um sómasamleg kjör og öruggt húsnæði.
Guðmundur Auðunsson hagfræðingur i London ræddi landsþingið við Rauða borðið og sagði það haldið við góðar ytri aðstæður. Hlutabréfa-, skuldabréfa- og gjaldeyrismarkaðir hefðu tekið illa í skattalækkanir ríkisstjórnar Liz Truss til hinna ríku, sem hefðu valdið upplausn ofan á framfærslukrísuna í kjölfar orkukreppu.
Þetta væri staða sem hentaði hægri krötum í Verkamannaflokknum vel. Íhaldsflokkurinn hefði sveigt af popúlískri braut Boris Johnson, sem kölluð var levelling up og átti að vera einskonar hægri-jafnaðarstefna , og tekið upp ískalda nýfrjálshyggju að hætti Margaret Thatcher. Við það skapaðist rými á miðjunni fyrir hægri krata, að sækja inn í lendur hinna íhaldssömu.
Skiljanlega veldur þetta ugg meðal vinstrafólks innan flokksins, sem vel má merkja í ummælum Mick Lynch, sem er orðinn forystumaður vinstri arms flokksins þótt hann sitji ekki á þingi. Hann er sú málpípa róttækni sem best heyrist í dag.
Það bætir síðan ekki ástandið að á sama tíma og landsþingið er haldið sýnir Al Jazeera þáttaröð, Labour Files, um undirróður hægri krata gegn formennsku Jeremy Corbyn og í raun gegn öllu vinstrisinnuðu fólki í flokknum. Í þáttunum kemur fram hvernig ásakanir um gyðingahatur gegn þeim sem studdu frelsisbaráttu Palestínumanna voru notaðar til að trufla málflutning Corbyn og grafa undan róttækara fólki í flokknum. Jafnvel gyðingar, sem eru afkomendur fólks sem fórst í helförinni, voru sakaðir um gyðingahatur ef þeir studdu ekki ofríki ríkisstjórnar Ísrael.
Á bak við þetta var fyrst og fremst valdabarátta, áætlun hægri krata um að grafa undan Corbyn og ná aftur völdum í flokknum. Niðurstaðan er Keir Starmer sem formaður og brotthvarf um hundrað þúsund félaga úr Verkamannaflokknum. Og að róttækt vinstrafólk er aftur orðið landlaust í breskum flokkastjórnmálum, eins og var á tíma Tony Blair. Munurinn þá og nú er hins vegar sá að almenningur styður verkalýðshreyfinguna í hennar aðgerðum og skipuleggur sig á vettvangi sem kalla má stjórnmál götunnar. Þar er Mick Lynch afgerandi forystumaður.
Al Jazeera er búið að sýna tvö þætti af Labour Files og sá síðasti verður sýndur seinna í dag. En hér eru fyrstu tveir þættirnir:
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga