Samtökin iðnaðarins kynntu kröfugerð sína á stjórnvöld í morgun. Hún er öll í anda nýfrjálshyggjunnar. Eigendur fyrirtækja vilja borga minna til ríkisins en fá meira út úr því, draga út eftirliti með starfsemi sinni og að ríkisvaldið beiti sér svo að komandi kjarasamningar skili launafólki sem minnstum launahækkunum.
Samtök iðnaðarins eru eins og önnur hagsmunasamtök fjármagns- og fyrirtækjaeigenda ekki lýðræðisleg í þeim skilningi að hver félagi hafi þar eitt atkvæði. Reglan er sú að hver króna hefur eitt atkvæði. Fyrirtækin greiða til samtakanna í takt við veltu og fá atkvæðamagn í hlutfalli við þær greiðslur. Stærstu fyrirtækin hafa því mesta vægið og ráða stefnunni.
Samtök iðnaðarins hafa þó gætt þess að velja líka fulltrúa lítilla fyrirtækja í stjórn, öfugt við flest hagsmunasamtök fjármagns- og fyrirtækjaeigenda. Formaður Samtaka iðnaðarins kemur frá Marel, en aðrir stjórnarmenn eru frá Norðuráli, Íslenskum aðalverktökum, verktakafyrirtækjunum Mannviti, VSB, Launafli og Öxum, samheitalyfjafyrirtækinu Coripharma, Íslenska kalkþörungarfélaginu og svo er þarna einn gullsmiður.
En hvað vilja eigendur stærstu fyrirtækjanna í iðnaði?
Þeir vilja að ekki verði samið um miklar kjarabætur fyrir launafólk. Þeir vilja að hagstjórnartækjum verði beitt þannig að eigendum framleiðslufyrirtækja líði sem best. Þeir vilja að skattar á fyrirtæki og eigendur fyrirtækja verði lækkaðir; tryggingagjald, fasteignaskattar, virðisauki. Og að umhverfisskattar verði lágir og trufli sem minnsta starfsemi fyrirtækja. Þeir vilja að ríki styðji nýsköpun og þróun, þ.e. fái styrki úr ríkissjóði til að þróa vörur sínar. Þeir vilja að sveitarfélögum verði settar skorður við innheimtu gjalda af fyrirtækjum. Þeir vilja að ríkið beiti sér í hagsmunagæslu fyrir fyrirtækin í Evrópu. Þeir vilja einkavæða það sem eftir er af opinberum samkeppnisrekstri. Þeir vilja draga úr eftirliti með starfsemi fyrirtækja.
Þarna er því ekkert sem kemur á óvart. Þetta er langur listi af kröfum eigenda stórra fyrirtækja á hendur almannavaldinu. Þeir vilja borga minna og fá minna, fá að vera í friði en samt að ríkið þjóni sér.
Þarna er ekki orð um hvað stór iðnfyrirtæki ætla að leggja til samfélagsins, engar kröfur inn á við. Engin loforð um að hækka laun eða stytta vinnutíma, ekkert um að taka þátt í uppbyggingu samfélagslegra innviða eða menntun starfsfólks, ekkert um að leysa húsnæðisvanda þúsunda, ekkert um að auka jöfnuð eða réttlæti, draga út mengun né vinna gegn loftlagsvánni.
Þessar eru kröfur stærstu eigenda stærstu iðnfyrirtækjanna:
1. Styðja við nýjar útflutningsstoðir þannig að þær fái svigrúm til að vaxa.
2. Nýta þá fjölmörgu þætti sem hafa áhrif á stöðugleika og vinna þar með að fjölbreyttum umbótum.
3. Beita hagstjórnartækjum þannig að stutt verði við framboðshlið hagkerfisins.
4. Ná kjarasamningum sem renna stoðum undir stöðugleika auk þess að einfalda kjarasamninga og láta þá taka mið af vexti nýrra atvinnugreina.
5. Lækka íþyngjandi álögur.
6. Nýta efnahagslega hvata til að ná fram stefnumarkmiðum.
7. Lækka tryggingagjald og endurskoða grundvöll þess.
8. Endurskoða fyrirkomulag fasteignaskatta með það að markmiði að minnka álögur á fyrirtæki og auka stöðugleika við innheimtu skattsins.
9. Samræma virðisaukaskattskerfið og tryggja þannig sanngjarna og skilvirka framkvæmd til að koma í veg fyrir að virðisaukaskattur veiki samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja.
10. Gera þjónustugjöld gagnsærri.
11. Gæta hófs við álagningu umhverfisgjalda og tryggja að þau skili sér í umhverfis- og loftlagsaðgerðir.
12. Setja skýran lagaramma um heimildir sveitarfélaga til innheimtu innviðagjalda.
13. Tryggja jafnræði fyrirtækja á markaði.
14. Bæta lagasetningu með víðtækara mati á íþyngjandi áhrifum nýrra ákvæða.
15. Greina íslenska hagsmuni markvisst og tímanlega við þróun Evrópureglna og fylgja mikilsverðum hagsmunum eftir af festu.
16. Innleiða Evrópureglur án íþyngjandi viðbótarkvaða.
17. Birta skrá yfir opinberar eftirlitsreglur.
18. Einfalda framkvæmd eftirlits og útvista til einkaaðila.
19. Samræma stjórnsýslu sveitarfélaga.
20. Einfalda meðferð kærumála.
21. Bæta eftirlit með lögvernduðum iðngreinum.
22. Gera samkeppniseftirlit hraðvirkara og fyrirsjánlegra.
23. Draga úr opinberum samkeppnisrekstri og tryggja samkeppnislegt hlutleysi á markaði.
24. Auka markvisst útvistun hins opinbera á sérfræðiþjónustu.
25. Vanda betur gerð útboðsskilmála og framkvæmd opinberra innkaupa og bæta eftirlit með þeim.
26. Bæta leiðbeiningar ríkisstofnana.
Lesa má kröfugerð eigenda iðnfyrirtækja hér: Stöðugt, hagkvæmt og skilvirkt starfsumhverfi
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga