Ríkisstjórnir víða um Evrópu hafa sett út björgunarpakka til að mæta áhrifum orkukreppunnar, sem grafið hefur undan kaupmætti almennings. Hér heima hefur Samfylkingin lagt fram þingsályktunartillögu með að mörgu leyti svipuðum aðgerðum þótt vandinn hér sé hækkun á húsnæðiskostnaði vegna vaxtahækkana Seðlabankans en ekki hækkun orkuverðs vegna innrásar Pútíns í Úkraínu.
Í Þýskalandi hafa ríkisstjórnarflokkarnir þrír samið um neyðaraðgerðir til að bæta hag almennings sem glímir nú við síhækkandi orkukostnað. Þjóðverjar hafa um hríð haft aðgang að öllum almenningssamgöngum fyrir níu evrur á mánuði og verður þeim kjörum framlengt. Lífeyrisþegar fá eingreiðslu sem nemur 300 evrum og sömuleiðis fá nemar 200 evru framfærslustyrk. Að auki verða barnabætur hækkaðar.
Verð á raforku til fyrirtækja í Þýskalandi hefur hækkað um 139% á ársgrundvelli.
Frakkland var með fyrstu þjóðum sem beitti verðstýringum á raforku til að hlýfa heimilum en Bretar hyggjast nýta álíka úrræði frá og með næsta mánuði. Fyrir utan verþak hafa tekjulægstu heimili Frakklands fengið inneignir sem nýtast í greiðslur á rafmagni og hita. Fyrir vikið hefur verðlag Frakklands mælst tveimur prósentum fyrir neðan meðaltalið í Evrópu.
Eins og fram hefur komið á Stundinni hyggst Evrópusambandið leggja á hvalrekaskatt á orkufyrirtæki sem nemur 140 milljörðum evra. Sú upphæð verður eyrnamerkt mótvægisaðgerðum við hækkandi orkukostnaði í kjölfar Úkraínustríðsins.
Samfylkingin leggur til leigubremsu og hvalrekaskatt
Kristrún Frostadóttir er flutningsmaður nýrrar þingsályktunartillögu um sérstakar samstöðuaðgerðir vegna verðbólgu og vaxtahækkana. Þingmenn Samfylkingarinnar leggja til þrjár aðgerðir til að bæta hag tekjulágra hópa ásamt tillögu að hvalrekaskatt.
Í greinargerð tillögunnar er ástand húsnæðismarkaðarins rakið til mikilla vaxtalækkana og aukinna útlána fjármálastofnana. Samfylkingarþingmennirnir segja að vaxtalækkanir hafi gagnast fjármagnseigendum sem sáu eignir sínar hækka í verði og að vaxtahækkanir sem komu í kjölfarið „[…] bitni hlutfallslega verst á þeim sem eru eignaminnstir, og eiga minnsta höfuðstólinn í landinu“.
Bent er á að þegar vextir lækkuðu og voru komnir á svipaðar slóðir á í nágrannalöndunum töluðu æðstu embætti peningastefnunnar og efnahagsmála um kaflaskil í íslenskri hagsögu, að vextir hefði lækkað til lengri tíma og að ekki væri lengur þörf á háu vaxtastigi.
Ein af tillögunum snýr að bættum hag leigjenda með leigubremsu að danskri fyrirmynd. Í Danmörku hefur verið samþykkt 4% hámark á leiguhækkun hvers árs, með undanþágum ef leigjandi getur fært rök fyrir hækkuninni. Hlutfall íbúa sem leigja er um 40% í Danmörku, 30% að meðaltali í Evrópusambandsríkjunum en aðeins 17% á Íslandi og hefur farið lækkandi. Hærra hlutfall leigjenda helst í hendur við ríkari rétt leigjenda í Evrópulöndunum.
Samfylkingin dregur athygli að umfjöllun ASÍ um vaxtabótakerfið sem mikið hefur fjarað undan í seinni tíð á kostnað skattaafsláttar í formi nýtingu viðbótarlífeyrissparnaðar fyrir höfuðstól húsnæðislána. Fyrra kerfið dregur úr ójöfnuði með því að drýgja ráðstöfunartekjur þeirra efnaminni, en seinna kerfið hafi aðallega nýst þeim tekjuhæstu sem greiða ríflega í lífeyrissparnað. Tillaga Samfylkingarinnar er að hækka skerðingarmörk vaxtabóta svo að þær nýtist fleirum og að greiðslur aukist til þeirra verst settu.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga