Víðsvegar um Evrópu hafa verksmiðjur dregið úr eða stöðvað framleiðslu vegna hækkandi orkukostnaðar. Orkuverð innan evrulanda hefur hækkað um 38,6% á ársgrundvelli. Í mörgum tilfellum hefur starfsfólki verið sagt upp eða verið fært í hlutastarf.
Í Frakklandi hafa verksmiðjur glerframleiðandans Duralex verið lokaðar síðustu fimm mánuði. Keramik verksmiðjur í Bretlandi hafa einnig orðið fyrir hnekkjum. Störf fagfólks í gler- og keramiki eru í uppnámi víðsvegar um Evrópu.
Samtök orkufreks iðnaðar í Evrópu segja í bréfi til Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að margir orkufrekir geirar neyðist til að greiða með framleiðslu vegna orkukostnaðar, eigi framleiðsla að halda áfram og því muni fleiri verksmiðjur loka á næstunni. Framkvæmdastjórnin undirbýr viðbrögð við hækkandi orkukostnaði og hefur meðal annars lagt til hvalrekaskatt á orkufyrirtæki sem nemur 140 milljörðum evra.
Málmbræðsla á sérstaklega undir högg að sækja en framleiðendur á borð við LME, ArcelorMittal og Arc hafa ýmist dregið verulega úr framleiðslu eða undirbúa lokanir á verksmiðjum. Spænskir og þýskir framleiðendur eru í sömu sporum. Talið er evrópskum iðnaði verði af þremur milljónum tonna af árlegri framleiðslu þegar upp er staðið.
Þegar álver loka er tvísýnt hvort þau opni aftur þar sem gangsetning þeirra er flókin og kostnaðarsöm. Samdráttur framleiðslu áls olli miklum verðhækkunum í kringum áramót, en á móti hefur samdráttur í eftirspurn Kína dregið verðið aftur niður. Meðal framleiðenda sem hafa lokað álverum eða dregið verulega úr framleiðslu í Evrópu eru Alcoa, Aldel, Aluminium Dunkerque, Podgorica PKA, Slovalco (í eigu Norsk Hydro) og Trimet.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga