Styrkja Teslurnar meira en strætó

Umhverfismál 30. sep 2022

Samkvæmt úttekt Alþýðusambandsins varði ríkistjórn Katrínar Jakobsdóttur 9 milljörðum króna til að styrkja þau sem keyptu sér rafmagnsbíla í fyrra en aðeins 1 milljarði króna til að efla strætó, sem er umhverfisvænn ferðamáti sem einkum hin fátækari nota. Það eru hins vegar hin betur settu sem hafa efni á að kaupa sér nýja bíla. Ríkisstyrkur rann til dæmis til meira en tvö þúsund eigenda Tesla-bíla.

Í úttekt Auðar Ölvu Ólafsdóttur segir að gjöld í Strætó hafa verið hækkuð umtalsvert á undanförnum árum auk þess sem þjónusta Strætó hefur verið skert til að mæta hagræðingarkröfu. Framlag ríkisins til Strætó var rúmur milljarður árið 2021 en 1,8 milljarðar til viðbótar hefði þurft til að gera þjónustuna gjaldfrjálsa. Til samanburðar námu niðurgreiðslur ríkisins vegna kaupa á rafbílum, tengiltvinnbifreiðum og vetnisbifreiðum 9 milljörðum kr. árið 2021. Frá árinu 2012 hefur ríkið veitt 27,5 milljörðum í skattaívilnanir vegna vistvænna ökutækja.

Niðurgreiðsla á nýorkubílum nýtist helst tekjuhærri hópum og er aðgerðin talin þjóðhagslega óhagkvæm. Tekjulægri hópar nota almenningssamgöngur í meiri mæli en tekjuhærri hópar.  Lægri eða engin fargjöld myndu gagnast þeim hópi sem og ungu fólki sem er stór hópur notenda Strætó. Niðurgreiðslur á rafmagns- og tengiltvinnbílum nýtast frekar þeim sem eru tekjuhærri þar sem fólk með lægri tekjur hefur síður efni á að festa kaup á slíkum bílum og ýta ívilnanirnar því undir ójöfnuð. Hagfræðistofnun hefur bent á að ívilnanir vegna rafbílakaupa gagnist helst efnameiri hópum. Þar að auki bendir stofnunin á að þjóðhagsleg áhrif niðurgreiðslna á rafbílum séu neikvæð.

Engin loftslagsaðgerð stjórnvalda ber jafn mikinn kostnað og ívilnanir vegna nýorkubíla. Þá er kolefnisfótspor rafbíla mun meira en kolefnisfótspor almenningssamgangna.

Aðgerðir stjórnvalda í samgöngu- og loftslagsmálum eru óhagkvæmar og óskilvirkar auk þess að vera í andstöðu við réttlát umskipti sem stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar kveður á um að skuli vera leiðarstef í yfirstandandi breytingum vegna loftslagsvárinnar. Réttlát umskipti snúast um að hámarka áhrif loftslagsaðgerða en lágmarka neikvæð áhrif þeirra á almenning. Loftslagsaðgerðir í anda réttlátra umskipta byggja þannig á réttlæti, stuðla að jöfnuði og fela í sér bætt kjör og tækifæri fyrir almenning.

Ríkið setti 1 milljarð í rekstur Strætó árið 2021 en 9 milljarða í niðurgreiðslur á rafmagns- og tengiltvinnbifreiðum

Í vikunni bárust fréttir af því að gjaldskrá Strætó yrði hækkuð um 12,5% til að mæta kostnaðar- og verðhækkunum á aðföngum. Hækkuninni er ætlað að draga úr þörf á frekari hagræðingu í leiðakerfi Strætó á höfuðborgarsvæðinu. Á síðustu árum hefur Strætó verið gert að skerða þjónustu og skera niður í til þess að mæta hagræðingarkröfu eigenda félagsins.

Eigendur Strætó bs. eru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Rekstrartekjur Strætó samanstanda af fargjöldum, gjöldum frá Pant akstursþjónustu, rekstrarframlögum eignaraðila félagsins og ríkisframlögum. Meirihluti rekstrartekna félagsins (47%) árið 2021 kom frá eigendum félagsins, sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, á meðan fargjöld voru 21% af tekjum Strætó eða 1,8 milljarðar kr. Það er sú upphæð sem myndi kosta að gera Strætó gjaldfrjálsan. Framlög ríkisins til reksturs Strætó sama ár námu um 1 milljarði sem er 12% af rekstrartekjum félagsins.

Til samanburðar nam samanlögð niðurgreiðsla ríkisins vegna rafmagnsbíla, tengiltvinnbifreiða og vetnisbifreiða 9,2 milljörðum árið 2021. Það gerir 1,1 milljón í meðalniðurgreiðslu á hvern rafmagnsbíl og 932 þúsund krónur á hverja tengiltvinnbifreið. Þar að auki njóta eigendur nýorkubíla ýmiskonar annarra ívilnana svo sem lægri vörugjalda og bílastæðagjalda fyrir utan þann ávinning sem hlýst af því að verð á rafmagni er margfalt lægra en verð á bensíni og olíum.

Á tíu árum (2012-2022) hefur ríkið veitt 27,5 milljörðum króna í skattaívilnanir vegna „vistvænna“ ökutækja eða nýorkubíla. Margir hafa sett spurningamerki við niðurgreiðslur á tengiltvinnbifreiðum þar sem þær  séu eyðslufrekari en bílar sem ganga fyrir hefðbundnu jarðefnaeldsneyti og að það velti á eigendum þeirra hvort rafmagnið sé yfirleitt notað. Þá sýna rannsóknir að stór hluti kaupenda nýorkubíla hefði keypt sér slíkan bíl þrátt fyrir að engra niðurgreiðslna nyti við.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí