Í Danmörku er starfsfólk á yngstu deildum leikskóla mest með þrjú börn hvert. Hér í Reykjavík er starfsfólkið með fimm börn. Kerfið hefur ekki náð að vaxa þannig að það sinni þeim miklu kröfum sem ung börn gera, segir Ólafur Grétar Gunnarsson fjölskyldu- og hjónaráðgjafi og einn af aðstandendum Fimm fyrstu, félags sem leggur áherslu á mikilvægi fyrstu fimm áranna í lífi barna.
Félagið skorar á stjórnvöld að lengja fæðingarorlofið í 18 mánuði og hefur efnt til undirskriftasöfnunar til að styðja þá kröfu.
Í áskoruninni er tekið undir með faglegum stjórnendum leikskólanna sem segja stöðuna nú þegar óásættanlega þar sem sífellt er þrengt meira að börnum og starfsfólki. Þetta hefur m.a. komið fram í samtölum við leikskólastjóra og fagfólk við Rauða borðið.
„Staðan er slæm þrátt fyrir að börn séu ekki að komast inn fyrr en við 18 til 20 mánaða aldur. Ástandið verður mun verra ef krafa er gerð um að taka á móti öllum 12 mánaða börnum. Fagfólk leikskólanna kallar því eftir því að fæðingarorlof verði lengt í 18 mánuði,“ segir í áskoruninni.
Tekið er undir með faglegum stjórnendum sem segja stöðuna nú þegar óásættanlega þar sem sífellt er þrengt meira að börnum og starfsfólki. Staðan sé slæm þrátt fyrir að börn séu ekki að komast inn fyrr en við 18 til 20 mánaða aldur. Ástandið verði mun verra ef krafa er gerð um að taka á móti öllum 12 mánaða börnum. Fagfólk leikskólanna kalli því eftir því að fæðingarorlof verði lengt í 18 mánuði og tekur félagið Fyrstu fimm heilshugar undir það.
Með því að lengja fæðingarorlof í 18 mánuði, fyrir þau sem það kjósa, þá væri ríkið að koma til móts við sveitarfélögin, segir Ólafur. Ríkið kæmi þá með fjármagn upp á allt að 10 milljarða á landsvísu upp í þá 20 milljarðar sem sveitarfélögunum vantar samkvæmt nýjum formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga. Fyrstu fimm vilja styðja leikskólakennara í álagsminnkandi aðgerðum sem felast í því að fleiri foreldrar séu í fæðingarorlofi til 18 mánaða og að hvatt sé til að börn séu með styttri viðveru á milli 18 og 24 mánaða aldurs. Haraldur Gíslason, formaður Félags leikskólakennari, hefur sagt að þetta gæti lækkað útgjöld sveitarfélaga til leikskólamála um allt að 1/3.
Ólafur Grétar lagði áherslu á í samtalinu við Rauða borðið hversu mikilvæg fyrstu ár barnsins eru og þörf þeirra fyrir nánd og samveru með foreldrum. En hann lagði líka áherslu á hversu mikilvæg samskiptin við börnin væru fyrir foreldrana, ekki síst karlana. Það væri því ekki aðeins mikilvægt að tryggja börnunum nánd og öryggi og koma með því í veg fyrir erfiðleika síðar á ævinni heldur myndi það líka bæta samfélagið ef foreldrarnir fengju að vera með börnunum, og þá sérstaklega karlarnir.
Á undirskriftalistanum er krafist frekari aðkomu stjórnvalda til að styðja barnafjölskyldur í umönnunarbilinu þar sem borg- og sveitarfélög hafa takmarkaða burði til að tryggja fullnægjandi aðstæður fyrir börn. Þess er krafist að fundnar verða lausnir til að bæta lífsgæði barna og foreldra þeirra á fyrstu æviárunum.
Samtalið við Ólaf Grétar má sjá og heyra í spilaranum hér að ofan. Þau sem vilja kynna sér kröfur Fimm fyrstu og skrifa undir þær geta nálgast undirskriftalistann hér: Lengjum fæðingarorlof í 18 mánuði.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga