2400% vextir hjá þeim sem lenda í vanskilum

Okur 6. okt 2022

Neytendasamtökunum barst ábending vanskilakostnað smálánafyrirtækisins Núnú. En krafa fyrirtækisins með 12.000 króna höfuðstól var komin í 45.440 krónur á aðeins 6 vikum, sem jafngildir rúmlega 2.400% ávöxtun á ársgrundvelli. Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna segir að færa megi fyrir því rök að smálánaviðskipti gangi út á að fólk fari í vanskil til þess að geta haft af lántökum verulegar upphæðir í formi innheimtuþóknana.

Núnú hét áður Kredia Group og er í eigu Orka Holding, þar sem aðaleigandinn er Leifur Haraldsson. „Hér á Íslandi mun­um við starfa und­ir vörumerk­inu NúNú og bjóða upp á hag­kvæma fjár­mögn­un á sann­gjarn­an, ein­fald­an og þægi­leg­an hátt. Fljót­lega verður hægt að skrá sig fyr­ir kort­um og mun­um við hefja af­hend­ing­ar í júní,“ sagði Leif­ur í til­kynn­ing­unni um fyr­ir­ætlan­ir fyr­ir­tæk­is­ins á ís­lensk­um markaði fyrir skömmu.

Leifur Haraldsson.

Breki Karlsson fjallar um óheyrilegan innheimtukostnað í nýjasta Neytendablaðinu og segir það hafa verið til mikilla bóta þegar loksins voru sett innheimtulög á Íslandi árið 2008 en þau þarf að laga. Fyrir það fyrsta sé ólíðandi að sum innheimtufyrirtæki geti komið sér undan eftirliti og í öðru lagi þarf að setja hámark á innheimtukostnað. Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi innheimtufyrirtækja, með þeirri sérkennilegu undantekningu að Lögmannafélag Íslands fer með eftirlit með innheimtustarfsemi lögmanna.

„Slíkt eftirlit félagasamtaka með félögum sínum er einstakt og taktlaust, enda hefur sýnt sig að smálánafyrirtæki og innheimtuaðilar þeirra hafa nýtt sér það til hins ítrasta,“ skrifar Breki. „Að ekki sé minnst á hversu bitlaust eftirlitið er, en dæmi er um lögmann sem kvartað var yfir og fékk sjaldgæfa áminningu frá félagi sínu. Hann stefndi kvartandanum og fékk áminninguna niður fellda mótbárulaust frá Lögmannafélaginu, sem tók ekki einu sinni til varna.“

Fleiri hundruð manns hafa leitað til Neytendasamtakanna vegna harðneskjulegra innheimtuaðgerða á undanförnum tveimur árum. Lántakendur eru varnarlausir gagnvart kostnaði innheimtufyrirtækja þar sem þeir eiga ekki í viðskiptasambandi við þau heldur við kröfuhafa. Þá er viðskiptasamband kröfuhafa og innheimtufyrirtækja oft á þann veg að hvorugur hefur hag af því að leitað sé hagræðingar við innheimtu. Það bitnar á neytendum.

„Af fenginni þessari reynslu telja Neytendasamtökin einnig afar brýnt að sett verði þak á heildarinnheimtukostnað líkt og nágrannaþjóðirnar hafa gert,“ skrifar Breki.

Smálánafyrirtækin nýta sér þessa gloppu. Eftir vel heppnaðar breytingar á lögum um neytendalán, þar sem þak var sett á vexti, nýta smálánafyrirtæki sér nú að ekkert hámark er á innheimtukostnaði og hala inn sömu og jafnvel hærri upphæðum í gegnum innheimtugjöld og þau gerðu áður með okurvöxtum. Það má jafnvel færa fyrir því rök að smálánaviðskipti gangi út á að fólk fari í vanskil til þess að geta haft af lántökum verulegar upphæðir í formi innheimtuþóknana. Nýlega fluttu Neytendasamtökin fréttir af 12.000 króna höfuðstól í innheimtu sem óx í 45.440 krónur á aðeins 6 vikum, en vöxturinn jafngildir rúmlega 2.400% vöxtum á ársgrundvelli. 

„Það er mat Neytendasamtakanna að með því að setja þak á innheimtukostnað sé fótunum að miklu leyti kippt undan starfsemi smálánafyrirtækja,“ skrifar Breki. „Slíkt þak þarf ekki að raska starfsemi heiðvirðra innheimtufyrirtækja, enda væri það langtum hærra en það sem gengur og gerist, en bregður fæti fyrir þau fyrirtæki sem nýta sér ágalla kerfisins.“

Neytendasamtökin hafa lagt til að innheimtukostnaður megi aldrei verða hærri en upphafleg lánsfjárhæð. Þannig mætti innheimtukostnaður 100.000 kr. neytendaláns nema að hámarki samtals 100.000 kr. og þykir mörgum meira en nóg. Sambærilegt hámark hefur þegar verið sett í nágrannalöndum okkar. Neytendasamtökin kalla eftir því að lögum verði komið yfir alla innheimtustarfsemi hér á landi. Krafan er þak á innheimtukostnað og raunverulegt eftirlit með innheimtustarfsemi.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí