Áhugamaður um vopn, ofbeldi og hægrisinnuð stjórnmál

Dómsmál 11. okt 2022

Það er ekki hægt að fjalla um mögulega hryðjuverkaógn á Íslandi án þess að ræða þá menn sem sitja í gæsluvarðhaldi grunaðir um áform um stórfelld hryðjuverk. Það er engin leið að við getum skilið hættuna sem samfélagið á að hafa verið í, og er mögulega í, ef við fáum ekki að vita frá hverjum hættan stafar. Þess vegna birti Samstöðin nöfn mannanna tveggja í gær og birtir nú myndir af þeim. Og óskar eftir upplýsingum ykkar um athafnir þeirra og skoðanir.

Ungi maður til vinstri er Ísidór Nathansson 24 ára og sá til hægri er Sindri Snær Birgisson 25 ára. Ísidór er með lögheimili í Hlíðunum en Sindri Snær í Rimahverfi. Það hefur komið fram að lögreglan grunar þá um að hafa verið með ráðagerðir að fremja fjöldamorð á árshátíð lögreglumanna og að ráðast með einhverjum hætti að Alþingi eða þingmönnum. 

Héraðsaksóknari hefur kallað til vitnaleiðslu fólk sem Ísidór og Sindri Snær gældu við að myrða. Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, greindu frá því í gærmorgun að þau voru meðal þessa fólks. Og í kjölfarið kom yfirlýsing um að Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata og fyrrum þingmenn flokksins, þeir Smári McCarthy og Helgi Hrafn Gunnarsson, hefði einnig verið kallaðir til vitnis vegna þess að þeirra nöfn voru nefnd af sambærilegu tilefni.

Mögulega munu fleiri stíga fram á næstu dögum og þá mun ef til vill skýrast betur hverjar pólitískar áherslur mannanna eru. 

Það er ekki mikið hægt að finna um þá félaga á samfélagsmiðlum. Ísidór opnaði twitter-aðgang í apríl á þessu ári, sjá hér, þar sem hann fylgist með fjölmörgum síðum um þrívíddarprentanir vopna, sem flestar eru með áróður gegn takmörkun á byssueign og andúð gegn vinstrimönnum. Ein er með slagorðið: curb stomp your local commie, en curb stomp er það kallað þegar fórnarlambið er látið leggjast á magann og opinn munnur þess settur yfir gangstéttarbrún og síðan trampað af krafti á hnakkann. Þau sem sáu American History X muna eftir slíkri árás.

Ísidór fylgist líka með nokkrum hægri sinnuðum amerískum og breskum útvarps- og hlaðvarpsmönnum: Tom Fitton, Paul Joseph Watson, Dan Bongino og svo auðvitað Jordan B. Peterson. Eina íslenska pólitíkin sem hann fylgir eru Ungir sjálfstæðismenn, Bjarni Benediktsson, Brynjar Níelsson, Sigríður Andersen og Erna Ýr Öldudóttir.

Undarlega lítið umfjöllun

Það hefur merkilega lítið verið fjallað um þetta mál í fjölmiðlum. Lögreglan heldur blaðamannafund og tilkynnir að hún hafi stoppað ráðagerðir um stórfelld hryðjuverk og talar um tengsl við öfga-hægri hópa. Síðan kemur í ljós að ráðagerðirnar munu hafa beinst að árshátíð lögreglumanna og Alþingi. Viku eftir handtökurnar tilkynnir lögreglan að gerð hafi verið húsleit á mörgum stöðum og lagt hald á mikið af vopnum, meðal annars hjá föður Ríkislögreglustjóra. Sem segir sig þá frá málinu og það er flutt til héraðssaksóknara.

Þetta ætti að vera upptaktur í heilmikla umfjöllun fjölmiðla. En það undarlega gerist að við þessa tilkynningu þagna allar fréttir. Um 4/5 af öllum fréttum af þessu máli á helstu netmiðlum voru sagðar frá handtöku fram að síðari blaðamannafundinum, þar sem kom fram að faðir Ríkislögreglustjóra tengdist málinu. Eftir það hafa varla verið sagðar aðrar fréttir en að farið hafi verið fram á framlengingu gæsluvarðhalds og það samþykkt eða stytt.

Einhverjar fréttir hafa verið sagðar af umræðum á vettvangi stjórnmálanna um það sem einu sinni hét forvirkar rannsóknir en dómsmálaráðherra vill nú kalla afbrotavarnir en eru auðvitað bara njósnir. Einhverjir fræðimenn hafa verið fengnir til að spá í spilin sem lögreglan heldur þétt að sér. Engar fréttir eru sagðar af því hvaða menn sitja í gæsluvarðhaldi. Líklega fer það að nálgast Íslandsmet að menn sitji svo lengi í gæsluvarðhaldi vegna grunns um alvarlegan glæp án þess nafn viðkomandi sé birt. Meintir brotamenn eru nauðsynlegt andlag í umfjöllun um glæpi. Það er algjörlega ómögulegt að fjalla um þetta mál ef ekki má minnast á meinta gerendur.

Svo staðan er sú í samfélaginu að okkur var sagt að hér hafi stórfelldu pólitísku hryðjuverki verið afstýrt á síðustu stundu. En við eigum ekki að fá neinar upplýsingar um þessa vá, ekki fylgjast með fréttum í rauntíma heldur að lesa bókina einhvern tímann löngu seinna. Það sama má í raun segja um rannsókn á Samherjamálinu. Og sölunni á Íslandsbanka. Mikilvæg mál, sem snerta alla landsmenn vegna þess að þau varpa nýju ljósi á samfélagið, eru afgreidd í myrkri eins og almenningur eigi ekki rétt á vitneskju um stærstu mál dagsins. Og fjölmiðlarnir sætta sig flestir við þessa stöðu. 

Þau sem vilja koma upplýsingum til samstöðvarinnar geta sent skilaboð á ritstjorn@samstodin.is eða hringt í 8217515.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí