Áköf verkföll í Frakklandi í miðri orkukreppu

Orkukreppan 10. okt 2022

Verkföll geisa í Frakklandi í miðri orkukreppu. Vegna verkfalla hefur verð á orkugjöfum ekki aðeins rokið upp heldur er skortur á bensíni og olíu á bensínstöðvum. Emmanuel Macron forseti hvetur Frakka til að kynda hús sín minna og er nú farinn að ganga um í rúllukragapeysu, þar sem skrúfað hefur verið niður í kyndingunni í Élysée-höll.

Macron leggur áherslu á að orkusparnaður sé ekki kvöð heldur valkostur. Það voru svo margar skyldur lagðar á menn í útgöngubanninu í cóvid að ákveðið var að beita aðlöðun fremur en valdboði gagnvart þessari nýju kreppu. Í þetta sinn snýst allt um sobriété eða hófsemi og þjóðin hvött til að lækka aðeins hitastig inni í húsum, ganga eða hjóla stuttar vegalengdir. 

Lítið framboð á bensíni við París

Með öðrum orðum eru aðgerðir stjórnvalda fremur mildar enn sem komið er. Hins vegar virðist hlaupin harka í verkfall CGT, sem er ASÍ franskra verkamanna, við hreinsunar- og eldsneytisbirgðastöðvar hjá Total, sem hefur nú staðið í tæpar tvær vikur.

Olíurisinn Total ræður um helmingi franska olíumarkaðarins og verkfallið kemur afar illa við almenning.  Næstum þriðja hver stöð er í vandræðum með framboð og samkvæmt upplýsingum frá orkumálaráðuneytinu áttu 30% franskra bensínstöðva í erfiðleikum með framboð á að minnsta kosti einni vörutegund, sunnudag klukkan 15, á móti 20% á laugardag um hádegi.

Ástandið er sérstaklega slæmt í þeim landshluta norðan Parísar sem nefnist Hauts-de-France en 55% bensínstöðva þar átti í vandræðum með að útvega eldsneyti. Einnig er ástandið slæmt í Ile-de-France, svæðið í kringum höfuðborgina, þar sem 45% bensínstöðva hafa ekkert eldsneyti fram að bjóða. Bílaeigendur eru teknir að ókyrrast og eru mörg dæmi um átök í biðröð við bensínstöðvarnar.

Nú hefur verkfallinu enn verið framlengt um sólarhring, þegar þetta er ritað. Kröfur verkamanna eru 10% hækkun launa, 7% vegna verðbólgu og 3% vegna ofsagróða olíufélaganna.

Gabriel Attal, fjárlagaráðherra, sagði í útvarpsviðtali virða mannréttindi, stjórnarskrá og verkfallsrétt. Hann skilur hins vegar ekki að stéttafélög séu að boða til forvirkra verkfalla, eins og hann kallar þau, þ.e. verkföll sem miða að því að koma í veg fyrir óorðinn hlut.

Frakkland illa búið undir orkukreppu

Í Evrópusambandinu var lengi vel algengt að kol væru notuð til húshitunar. Rafmagn er fengið með vatnsaflsvirkjunum, og nú í seinni tíð með vindorku og sólarorku, en líka með kjarnorku. Svo er það húshitun. Nú um stundir er að leggjast af í Frakklandi að kynt sé með steinolíu en þess í stað velja menn gjarna loftdælur sem ganga fyrir rafmagni. Þá er nýttur sólarvarmi, gashitun er líka valkostur, og þar fram eftir götunum. Macron forseti hefur hampað kjarnorku sem hreinum valkosti til raforkuframleiðslu, og vissulega er kolefnisspor hennar ekkert. Þó er vel þekkt að kjarnorkuúrgangur er nokkuð sem illmögulegt er að losna við. Þjóðverjar hafa hins vegar kosið að brenna áfram kolum í neyð.

Stærsti vandinn í Frakklandi er sá hvað húsnæði er hrikalega illa einangrað. Menn kynda þegar kólnar í veðri og stórefla með því hlýnun jarðar, þar sem megnið af varmanum rýkur beint út í gufuhvolfið en íbúarnir sitja heima við heita ofna sína með sultardropa og værðarvoðir. Húshitunarkostnaður er víða býsna hár, sem von er, og hafa stjórnvöld verið að styðja heimilin til að bæta einangrunina. 

Svo er það bensínið og annað eldsneyti fyrir ökutæki. Þar er sömu sögu að segja. Rafmagnsbílum er að fjölga en hagkvæmni þeirra ekki alltaf augljós.

Í Frakklandi er olíukreppan 1973 iðulega rifjuð upp nú um stundir, enda var heimsverðið á olíu háð pólitískum viðburðum, rétt eins og nú. 

Stríðið í Úkraínu hefur haft mikil áhrif á orkunotkun í allri Evrópu. Verð á gasi og olíu hefur rokið upp og þar sem þetta eru stórir útgjaldaliðir heimilanna hefur kaupmáttur verkamanna hrunið. Jafnframt hafa orkufyrirtækin grætt á tá og fingri. Þetta hefur skapað mikla spennu í frönsku þjóðfélagi, sem ekki hefur enn náð sér á strik eftir Covid-19 og útgöngubannið langa. Þá sagði Macron forseti iðulega: „Hvað sem það kostar“ og styrkti þann rekstur sem verst varð úti. Nú er búið að lýsa því yfir að þessi yrðing heyrist ekki á næstunni. Rafmagn, kynding og eldsneyti, þetta eru lífsnauðsynlegir þættir á hverju heimili.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí