Allt selt úr landi. Nú tónlistin

Auðvaldið 10. okt 2022

Stærsti hluti íslensks tónlistararfs hefur nú verið seldur úr landi. Alda Music hefur verið keypt af Ingrooves, sem er dótturfyrirtæki Universal, sem aftur er alþjóðlegur auðhringur skráður í Hollandi af skattaástæðum, með höfuðstöðvar í Kaliforníu en í meirihlutaeign fransks auðkýfings, kínversk auðhrings og bresks hrægammasjóðs.

Innan Öldu Music var megnið af útgáfurétti íslenskrar tónlistar frá upphafi og fram yfir Hrun, en Alda var nýtt nafn á Senu, sem aftur var nýtt nafn á Skífunni, sem Jón Ólafsson átti og rak. Jón hafði keypt upp megnið af eldri útgáfurétti sem lá hjá öðrum plötufyrirtækjum.

Fyrir nokkrum árum keypti Sölvi Blöndal hagfræðingur og forsprakki Quarashi tónlistarhlutann út úr Senu og stofnaði Öldu Music utan um hann. Sölvi hefur nú selt félagið til Ingrooves. Sölvi er eigandi Öldu ásamt Reyn­i Harðar­syni, eiganda tölvuleikjafyrirtækisins Sólfars. Ólafur Arnalds tónlistarmaður var hluthafi, en hafði selt hlut sinn.

Universal er ásamt Sony og Warner eigandi að stórum hluta af tónlistararfi heimsins. Félagið innheimtir rentu hvar sem tónlistin er notuð. Á lágvaxtatímanum í gegnum cóvid varð þessi renta hlutfallslega arðsamari í samanburði við skuldabréfamarkað og því hækkuðu félög sem áttu tónlistarrétt í verði. Eigendur Öldu nutu þess og seldu félagið úr landi með góðum hagnaði.

Helstu eigendur Universal, sem nú á íslenskan tónlistararf eru franski auðkýfingurinn Vincent Bolloré. Hann er af ætt sem auðgaðist af Afríkuviðskiptum á nýlendutímanum en hefur breytt fjölskyldufyrirtækinu í alþjóðlega samsteypu sem hefur einkum keypt upp fjölmiðlafyrirtæki í Frakklandi, Ítalíu og víðar. Afríkuviðskiptin séu enn veigamikil, félagið á þar hafnir og innviði. Þar hefur Bolloré og fyrirtækið verið sakað um allskyns mútur og spillingu. Bolloré var hnepptur í gæsluvarðhald vegna rannsókna þessara mála og sían dæmdur til að borga tæpa tvo milljarða í sekt vegna fjármálamisferlis í Tógó.

Bolloré hefur verið kallaður Rupert Murdoch Frakklands. Hann hefur gert viðlíka hægri valdastöð úr CNews TV og Murdoch gerðu úr Fox News í Bandaríkjunum, hefur notað auð sinn til að auka völd sín og pólitísk áhrif. Og auð sinn í gegnum þau áhrif.

Næst stærsti eigandi Universal er kínverski auðhringurinn Tencent, sem veltir um fjórum sinnum meira en íslenska hagkerfið. Tencent er stærsta tölvuleikjafyrirtæki í heimi og hefur keypt upp allskyns fyrirtæki í samfélagsmiðlum, tölvuleikjum, fjölmiðlum og höfundarrétti. Stofnandi og stjórnandi er Ma Huateng, kallaður Pony Ma, sem auðgaðist á WeChat, sem er stærsti samskiptamiðill í heimi. Pony Ma er í Kommúnistaflokki Kína og hefur setið á þjóðþingum flokksins.

Þriðji stærsti eigandinn er svo fjárfestingarsjóður skráður í Bretlandi, Pershing Square Holdings. Maðurinn á bak við hann er Bill Ackman, bandarískur milljarðamæringur og hrægammasjóðsstjóri, kannski þekktastur fyrir að fara í stríð við Herbal Life og veðja á fall þess fyrirtækis. Ackman hefur auðgast mest á að spá fyrir um og veðja á verðfall fyrirtækja og þykir einkar ósvífinn í viðskiptum.

Þetta eru helstu eigendur íslensku söngbókarinnar í dag.

Salan á Öldu kemur í kjölfar röð af sambærilegum sölum íslenskra innviða og verðmæta til erlendra félaga, fjárfestingasjóða sem ætla sér annað hvort að innheimta rentu af eign sinni eða svokallaðra frumkvöðla sem eru að klambera saman fjölþjóðlegum fyrirtækjum í von um að byggja upp úr því auðhringi, eða í versta falli eitthvað sem auðhringir vilja kaupa upp og gleypa.

Síminn seldi innviði sína til franska fjárfestingarsjóðsins Ardian fyrir skömmu.

Stóru greiðslumiðlunarfyrirtækin hafa bæði verið seld. Borgun var seld til SaltPay, sem skráð er á Cayma­n­eyj­um. SaltPay var stofnað af Eduardo Pontes, brasilískum manni sem stofnaði og rak greiðslumiðlunarfyrirtæki í Brasilíu en safnaði síðan miklu fé á mörkuðum til að kaupa upp greiðslumiðlunarfyrirtæki víða um heim; í Portúgal, Ungverjalandi, Tékklandi, Bretlandi og víðar. Valitor var selt til Rapyd, sem er ísraelskt félag stofnað af Arik Shtilman, sem hefur fyrirætlanir um að gera Rapyd að alþjóðlegu stórveldi með fjármálaverkfræði.

Dótturfyrirtæki Goldman Sachs bankans, líklega ósvífnasta fjárfestingabankanum á Wall Street, keypti Advania fyrir fáum árum. Þar inni er gamla Skýrr eða Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar og þar með öll grunntölvukerfin sem ríkið og ríkissjóður notar. Þarna er til dæmis ríkisbókhaldið og greiðslukerfin.

Mörg íslensk fyrirtæki eru með ráðagerðir um að selja frá sér innviði til erlendra fyrirtækja til að geta greitt eigendum sínum út meiri arð. Síminn hefur gengið lengst í þessu, að skræla fyrirtækið að innan og borga andvirðið út til hluthafa. En mörg önnur fyrirtæki vilja fylgja á eftir.

Og ríkisstjórnin er að skoða svipaða hluti, hvort ekki megi selja Keflavíkurflugvöll eða aðra innviði til alþjóðlegra fjárfesta. Sem eru, eins og upptalningin hér að ofan sýnir, annað hvort ungir menn með draum að verða ógeðslega ríkir undraskjótt eða eldri fjárfestar útataðir af spillingarmálum og slæmum orstý.

Myndin er frá 2017 þegar Sölvi Blöndal var verðlaunaður sem hagfræðingur ársins af Félagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga fyrir yfirgripsmikla þekkingu á fasteignamarkaði, en hann stýrði innkomu Gamma á fasteignamarkaðinn þar sem félagið keypti fasteignir ódýrt eftir Hrun og leigðu þær dýrt til fólksins sem hafði misst heimili sín á uppboði. Með Sölva á myndinni er Guðni Th. Jóhannesson forseti lýðveldisins.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí