Ástmaðurinn var ekki rannsakaður og flúði land

Dómsmál 16. okt 2022

Í ræðu sinni samstöðufundi á Austurvelli nefndi Erla Bolladóttir tvö dæmi um atriði Geirfinnsmálsins sem ekki voru rannsakaðir en hefðu getað breytt gangi rannsóknarinnar. Annars vegar manninn sem sagðist hafa hringt úr Hafnarbúðinni kvöldið sem Geirfinnur hvarf og hins vegar ástmann eiginkonu Geirfinns, sem aldrei var rannsakaður og hvarf af landi brott þegar rannsókn málsins stóð sem hæst.

Samstöðin endurbirti frásögn Jóns Grímssonar fyrir skömmu, mannsins sem kom til Keflavíkur umrætt kvöld, rataði illa um og hringdi úr Hafnarbúðinni á sama tíma og dularfulli maðurinn sem lögreglan taldi að hefði hringt í Geirfinn og boðað hann niður á höfn. Jón hringdi hins vegar í mann sem átti bíl sem hann var að sækja.

Erla benti á í ræðu sinni að lögreglan hefði lítið gert með vitnisburð þessa manns. Í fyrstu var því haldið fram að Magnús Leopoldsson hefði verið sá sem fékk að hringja í Hafnarbúðinni en síðan Kristján Viðar Viðarsson.

Hinn anginn sem Erla benti á til að sína hversu lítið það var rannsakað sem kynni að beina sök frá þeim sem síðar voru dæmd var ástmaður eiginkonu Guðfinns, Vilhjálmur Svanberg Helgason. Hann sagðist hafa verið í Keflavík dagana fyrir hvarf Geirfinns en sagðist hafa farið til Reykjavíkur 19. nóvember, daginn sem Geirfinnur hvarf og hafi farið í háskólann þar sem hann var við nám. Í annari yfirheyrslu sagðist hann hafa verið heima hjá foreldrum sínum.

Svanberg hvarf af landi brott 1976 þegar rannsókn Geirfinns- og Guðmundarmála stóðu sem hæst og hefur lítið sem ekkert komið hingað síðan. Hann er skráður í þjóðskrá með búsetu í Þýskalandi, og talið er að hann hafi búið þar megnið af þessum tíma.

Svanberg giftist konu frá Filippseyjum, Teresitu Helgason, og eiga þau saman soninn Helga. Teresita flutti til Filippseyja með son sinn eftir að þau Svanberg skildu.

Þýski heimildargerðarmaðurinn Boris Quatram hafði upp á Svanberg í Berlín þegar hann vann að þáttaröðinni Skandall um Geirfinnsmálið. Þá vildi svo til að Svanberg pakkaði saman og lét sig hverfa úr borginni. Quatram réð einkaspæjara til að hafa upp á honum og þegar það tókst neitaði Svanberg að láta taka við sig viðtal í mynd en neitaði því í hljóðupptöku að hafa orðið valdur að hvarfi Geirfinns.

Í viðtölum í tengslum við sýningu þáttanna sagðist Quatram ekkert geta fullyrt um mögulega sekt Svanbergs, en sér finnist undarlegt hversu lítið þessi ástmaður eiginkonu Geirfinns hefði verið rannsakaður.

„Það er ekki mitt hlutverk sem blaðamanns að bera menn sökum og mögulega kemur ekkert út úr því en nú er boltinn hjá lögreglu. Í ljósi þess hvernig Geirfinnsmálið hefur þróast hlýtur hún að vilja ná tali af þessum manni. Hvort sem hann býr yfir gagnlegum upplýsingum eður ei. Hann hefur aldrei verið yfirheyrður að neinu gagni. Hér er augljóslega um nýja slóð að ræða sem gæti verið tilefni til að opna málið að nýju. Hvort það leiðir síðan til þess að málið leysist er önnur saga,“ sagði Quatram í viðtali við Morgunblaðið áður en þættirnir voru sýndir.

Sjáandinn frá Jórdaníu

Erla benti á þessa tvo þræði sem lítið sem ekkert höfðu verið rannsakaðir og nefndi svo að lögreglan hefði ýmislegt lagt á sig til að elta aðra þræði. Til dæmis hefði Haukur Gunnarsson lögreglumaður ferðast með Guðnýju eiginkonu Geirfinns til Jórdaníu á fund sjáanda sem þeim hafði verið sagt að væri naskur við að leysa sakamál.

Forsaga þeirrar fréttar var að Palestínskur Íslendingur, Issa Jesus Samara, sem hafði tekið upp íslenska nafnið Ísak Georgsson þegar hann varð ríkisborgari eins og þá var lagaskylda, hafði samband við lögregluna og benti henni á að þessi jórdanski sjáandi gæti ef til vill leyst Geirfinnsmálið. Sjáandinn hefði fundið týnda skartgripi fyrir fjölskyldu Samara, vísað á hverjir hefðu tekið þá ófrjálsri hendi. Svo Samara hafði persónulega góða reynslu af honum.

Haukur fór síðan til Jórdaníu með Guðnýju og var Samara eða Ísak Georgsson með í för sem fararstjóri. Þau dvöldu vikutíma í landinu en nokkrar heimsóknir til sjáandans skulu engu og flugu Haukur og Guðný heim. Ísak dvaldi hins vegar lengur í Jórdaníu enda hafði fjölskylda hans flúið þangað eftir að Ísraelsmenn tóku Jerúsalem 1948 og hann alist þar upp.

Myndin með fréttinni er af Erlu Bolladóttur að halda erindi sitt á samstöðufundinum á Austurvelli.

Samstöðin mun halda áfram að fjalla um Geirfinns- og Guðmundarmál. Á mánudagskvöldið kemur Sigursteinn Másson blaðamaður að Rauða borðið og segir frá ýmsum hliðum þessa mikla máls.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí