Taldi sig vera Leirfinn

Dómsmál 12. okt 2022

Samstöðin hefur rifjað upp Geirfinns- og Guðmundarmál að undanförnu og ýmsar ábendingar berast stöðinni. Ein er um gamla frétt í DV um Jón Grímsson, sem nú er látinn, en sagðist hafa hringt úr Hafnarbúðinni kvöldið þegar Geirfinnur hvarf. Og var nokkuð viss um að hann væri maðurinn sem fræg stytta var gerð eftir.

Í viðtölum við áhugafólk um Geirfinnsmálið við Rauða borðið hefur komið fram hversu rannsóknin var gloppótt og skrítin. Eitt það skrítnasta er Leirfinnur sem búinn var eftir leiðsögn lögreglu og vitna. Hann þótti um tíma vera af Magnúsi Leópoldssyni en síðan af Kristjáni Viðari Kristjánsson. Um tíma var haldið að Leirfinnur gæti verið Jón Grímsson en lögreglan afskrifaði þann möguleika. En sjálfur var Jón næsta viss.

Mynd úr DV af Jóni um 1974 á sama tíma og maður kom inn í Hafnarbúðir í Keflavík.

Það er best að segja þessa sögu eins og Óttar Sveinsson blaðamaður sagði hana árið 2001. Hér er fréttin úr DV, sem mynd og texti.

Jón Grímsson kveðst hafa verið í Hafnarbúðinni þegar Geirfinnur Einarsson hvarf:

Hver getur þetta
verið annar en ég?

– þekkti Geirfinn ekkert – athyglivert, segir Magnús Leópoldsson – skýrsla óundirrituð

„Ég hef aldrei spáð i hvort ég sé líkur svokölluðum Leirfinni. En hver gat verið að spyrja til vegar í brúnum leðurjakka, með flaksandi belti, í Keflavík milli klukkan 21 og 21.30 ef það var ekki ég? Ég fór til Keflavíkur þennan dag, um þetta leyti, og fékk að hringja úr síma,“ sagði Jón Grímsson, 47 ára íbúi í Seattle í Bandaríkjunum, í samtali við DV í gærkvöld. í bókinni Ameríski draumurinn, eftir Reyni Traustason, segir Jón að hann hafi farið í Hafnarbúðina í Keflavík einmitt á þeim tíma sem svokallaður Leirfinnur, sem lýst var eftir í Geirfinnsmálinu svokallaða, kom þangað fyrir nákvæmlega 27 árum í dag.

Magnús Leópoldsson, sem lögreglan reyndi að tengja við Geirfinnsmálið á sínum tíma, segir að athyglisvert sé að framburður Jóns í lögregluskýrslu á sínum tima passi ekki við það sem hann segir í dag. 

Með öðrum orðum: svo geti verið að ekki hafi verið haft rétt eftir Jóni við skýrslugerð og lögreglan hafi ekki viljað beina athygli að því að Leirfinnur gæti hafa verið Jón Grímsson eftir allt. 

Að bjarga mannslífi í miðri skýrslutöku

Jón sagði í samtali við DV að þann 19. nóvember 1974, daginn sem Geirfinnur hvarf, hafi vinnuveitandi sinn sent hann ofan úr Sigölduvirkjun til Keflavíkur til að sækja bíl fyrir mann sem þar hafi einnig unnið – mann sem nokkrum árum áður hafði reyndar einmitt verið herbergisfélagi Geirfinns Einarssonar í Sigöldu.

Jón sagði að hann hefði tvisvar farið í skýrslutöku vegna þessa máls. í fyrra skiptið hefði lögreglumaður sem vann i Sigöldu tekið af honum skýrslu:

„Skýrslutakan fór fram inni í skúr uppi í Sigöldu. í miðju viðtali urðum við að hlaupa út vegna þess að Júgóslavi hafði farið ofan í sandsíló og var að deyja þar. Ég og lögreglumaðurinn lágum við hlið hans og vorum að reyna að halda manninum á lífi. Við urðum að grafa manninn út,“ sagði Jón. Eftir þetta kom Njörður Snæhólm rannsóknarlögreglumaður við annan mann, sem Jón segist ekki vita hver var, til að yfirheyra hann á dvalarstað hans að Sogavegi 158.

„En svo virðist sem ég hafi sloppið út úr þessu Geirfinnsmáli þegar Njörður sagði að leðurjakkinn minn hefði verið of dökkur. Þeir létu mig snúa mér við í jakkanum og sögðu svo þetta – jakkinn var of dökkur,“

Jón segist engu að síður telja yfirgnæfandi líkur á að hinn svokallaði Leirfinnur, sem lýst var eftir, sé hann sjálfur, með hliðsjón af því að hann kom í Hafnarbúðina að kvöldi 19. nóvember 1974 til að fá að hringja, einmitt á þeim tíma sem afgreiðslustúlka og tvær aðrar stúlkur sem voru í Hafnarbúðinni sögðu að umræddur maður hefði komið. Auk þess var Jón i raun sláandi líkur manninum sem styttan var gerð eftir.

Skýrslan ekki undirrituð

DV bar það undir Jón að i lögregluskýrslu sé eftir honum haft að hann hafi farið á Aðalstöðina og síðan hafi hann gengið að þeim stað þar sem billinn var sem hann átti að sækja:

„Ég veit ekki hvort ég fór í Hafnarbúðina eða hvort ég fór á Aðalstöðina því ég þekkti nákvæmlega ekkert til Keflavíkur. En ég fór á þennan stað þennan dag, á þessum tíma dags, fékk að hringja úr síma og var í brúnum leðurjakka. Leigubílinn beið eftir mér á meðan ég fékk að hringja, síðan fór ég út aftur og bílstjórinn ók mér á þann stað sem ég sótti bílinn.“

Magnús Leópoldsson segir að það sé athyglisvert að Jón Grímsson segist hafa farið í Hafnarbúðina til að hringja en í lögregluskýrslunni segir að hann hafi farið á Aðalstöðina.

„Það er ótrúleg tilviljun að Jón Grímsson skuli vera að sækja bíl fyrrum herbergisfélaga Geirfinns kvöldið sem hann hvarf,“ segir Magnús Leópoldsson. 

Undir lögregluskýrsluna er prentað á ritvél: „Þannig gjört – Haukur Guðmundsson“. Hvorki undirskrift Hauks né Jóns Grímssonar, sem skýrslan var tekin af, eru á skýrslunni. 

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí