„Samfélagið þolir að við setjum þarfir barna ofar á forgangslistann og það beinlínis þarfnast þess að við tökum mark á þekkingu um mótanleika barnsheilans og mikilvægi tengsla. Þá munum við ala upp heilbrigðari og sterkari einstaklinga og spara fjárhæðir sem munar um,“ segir Sæunn Kjartansdóttir sálgreinir.
Sæunn bendir á að félagsþroski árs gamalla barna sé ekki háður samveru við jafnaldra eða því að þau komist í skóla. „Mikilvægustu þroskaskilyrði barna fyrstu tvö árin, á meðan heili þeirra er í mestri mótun, eru að þau upplifi öryggi og að þeim sé hlíft við óhóflegri streitu,“ segir Sæunn. „Besta leiðin að því marki er að tryggja börnum tengsl við áreiðanlega fullorðna sem geta brugðist við síbreytilegum þörfum þeirra og glaðst yfir þeim. Þetta fullorðna fólk getur vitaskuld verið starfsfólk leikskóla. Þeir hæfustu eru samt oftast foreldrar þeirra.“
„Það er því skynsamlegt að gera foreldrum kleift að vera heima með börnum sínum fyrstu tvö árin ef þeir kjósa það, ekki með ölmusu, heldur greiðslum sem skipta máli,“ segir Sæunn. „Þetta kæmi ekki eingöngu fjölskyldum til góða heldur líka aðþrengdum leikskólum. Margir foreldrar árs gamalla barna munu eftir sem áður velja leikskóla og þess vegna verður að manna þá almennilega. Það þarf líka að tryggja að starfsfólk hafi þekkingu á þörfum og viðkvæmni ungra barna og getu til að bregðast við þeim.“
Við höfum rætt um kreppu leikskólanna að undanförnu við Rauða borðið, en ekki síður stöðu barnafjölskyldna, sem njóta minni stuðnings á Íslandi en á Norðurlöndunum. Hér er reyndar búið að lengja fæðingarorlofið í tólf mánuði en hér eru barnabætur lægri, húsnæðiskostnaður hærri og öll framfærsla og sveigjanleiki vinnumarkaðarins minni.
Sæunn tekur undir þetta og fagnar því að athygli félagsins Fimm fyrstu snúist ekki síður að efnahagslegri stöðu barnafjölskyldna en vitundarvakningu um mikilvægi fyrstu áranna, en bók Sæunnar Árin sem enginn man var kveikjan að stofnun félagsins.
Hún segir að búa þurfi líka til samfélag fyrir foreldrana. það sé einmannalegt að vera ein heima með barni sínu og foreldrar ættu að geta sótt í einhvers konar almannarými og hitt aðra foreldra og önnur börn. Það þurfi líka að styðja barnafjölskyldur sem á þurfa að halda með húshjálp og barnagæslu.
Sæunn segir að samfélagið þurfi að hugsa þessi mál upp á nýtt. Fjölmargar rannsóknir sýni að hver króna sem varið er í að tryggja börnum öryggi, athygli og umönnun skilar sér margfalt til baka. Og besta leiðin til þessa að er styðja foreldrana til að vera með börnum sínum. Það sé í raun mjög dýrt að vera með kerfi sem í reynd aðskilur foreldra og börn.
Viðtalið við Sæunni má sjá og heyra í spilarnum hér að ofan.
En hér má nálgast fyrri viðtölinni í þessari seríu um leikskóla, börn og barnafjölskyldur.
Viðtal við Hörð Svavarsson leikskólastjóra:
Síðan við Harald V. Gíslason, formann félags leikskólakennara:
Þá við Guðrúnu öldu Harðardóttur leikskólafrömuð
Og Kristínu Dýrfjörð dósent:
Einnig við Ólaf Grétar Gunnarsson ráðgjafa:
Og Önnu Mjöll Guðmundsdóttur, formann Fyrstu fimm.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga