Biðja aðeins um að fá að vera inni, ekki vera reknir út

Borgarmál 13. okt 2022

Heimilislausir karlar í Gistiskýlinu á Granda hafa nú í tvo morgna farið í einskonar setuverkfall. Ekki lagt niður vinnu, heldur sest niður og neitað að fara út. Á hverjum morgni klukkan tíu er þessum mönnum vísað úr húsi, mönnum sem eiga hvergi afdrep. Davíð Þór Jónsson og Ragnar Erling Hermannsson lýstu þessum aðgerðum við Rauða borðið.

Þeir félagar sögðust ekki þekkja til þess að þessi hópur hefði sameinast um aðgerðir áður, eins og nú er raunin. Til stendur að stofna félagið Viðmót, sem yrði farvegur fyrir hagsmunabaráttu heimilislausra og einkum þeirra sem eiga hvergi afdrep.

Og fyrstu kröfurnar eru hógværar. Þeir biðja ekki um annað en fá að vera undir þaki, að þeim sé ekki vísað úr húsi klukkan tíu á morgnanna og séu úti á guði og gaddinum fram til klukkan fimm þegar húsið er opnað aftur.

Þeir Davíð og Ragnar segjast finna til með starfsfólkinu sem er neitt til að framfylgja reglum sem settar eru af fólki sem aldrei kemur í gistiskýlið. Ragnar sagðist hafa vorkennt starfskonu fyrr í vikunni sem þurfti að vísa manni frá og breiddi teppi yfir mann sem fékk ekki að vera inni, í von um að hann héldi á sér hita yfir nóttina. Þá voru 18 karlar komnir í hús og samkvæmt reglunum má ekki taka inn fleiri.

Bæði starfsfólkið og hinir heimilislausu sjá ekkert að því að fleiri fái að leggja sig á sófa í anddyrinu yfir nótt eða jafnvel að reyna að sofna á stólum. Allt sé betra en að vera vísað út í kalda nóttina. En reglurnar erum skýrar, nítjánda manninum er vísað út.

Þeir Ragnar og Davíð segjast fara á kaffistofu Samhjálpar eftir að þeim er vísað út og síðan á bókasafn eða eitthvert þar sem þeir fá að vera. Í raun er fáránlegt að tala um þetta, segir Ragnar, krafa okkar er einföld og eitthvað sem allir ættu að skilja. Við viljum bara fá að vera inni en ekki vera vísað út. Við ættum ekki að þurfa að segja sögu okkar eða rökstyðja þessa kröfu. Allt fólk hlýtur að sjá að þetta er einföld og eðlileg krafa.

Eins og Örn Sigfússon, sem kom í viðtal við Rauða borðið fyrir tveimur vikum, þá forðast þeir gistiskýlið við Lindargötu. Davíð segir aðbúnað þar hryllilegan en Ragnar vill ekki tala illa um staðinn, af virðingu fyrir þeim sem verða að láta sér aðstöðuna þar linda.

Davíð bendir á að fólk sem er á götunni er þar af allskonar orsökum. Það er alls ekki svo að þarfir allra sem eru á götunni séu þær sömu. Þetta fólk er hins vegar allt sett í sömu skúffu hjá Reykjavíkurborg, þótt búa þyrfti til gerólík úrræði fyrir það.

Þeir hafa báðir trú á að aðgerðir þeirra skili árangri, segjast hafa orðið varir við mikil viðbrögð hjá fjölmiðlum og almenningi en ekki mikil hjá Reykjavíkurborg. Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, deildarstjóri hjá Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, kom í gistiskýlið í morgun og ræddi við karlana, en Ragnar sagði hana ekki hafa vald til að breyta neinu. Það sé yfirmenn á velferðarsviði og stjórnmálafólkið sem setji reglurnar sem starfsfólkið neyðist til að framfylgja. Þeir vona að aðgerðirnar nái eyrum þeirra.

Viðtalið við Ragnar og Davið má sjá og heyra í spilarnum hér að ofan.

Örn Sigfússon kom í viðtal við Rauða borðið fyrir tveimur vikum og ræddi um stöðu heimilislausra karla. Viðtalið við hann má sjá hér.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí