Simon Clarke, lyftum upp-ráðherra í ríkisstjórn Liz Truss segir í viðtali við The Times að forsætisráðherrann sé merkilega upplitsdjörf þrátt fyrir það rót sem efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa valdið á mörkuðum og samfélaginu. Clarke segir Truss hvetja samstarfsfólk sitt áfram, vísa til tíma Margaret Thatcher þegar Íhaldsflokkurinn fór í gegnum mörg ár mikillar andstöðu og vantrúar á stefnu hans. Fram undan væri tíð niðurskurðar ríkisútgjalda, þess sem kallað hefur verið sveltistefna.
Clarke segir að Truss hafi sagt stuðningsfólki sínu í sumar að viðbrögðin við stefnubreytingunni gætu orðið hörð, að umbreytingin yrði ekki notalegt ferli. Því sé Truss einbeitt í dag og sannfærð um að stjórnin sé á réttri leið.
Simon Clarke er leveling up-ráðherra, sem er embætti sem Boris Johnson bjó til eftir að hann fékk mikið lágstéttarfylgi, einkum í norðurhéruðunum sem hafa verið óvinnandi vígi Verkamannaflokksins. Það má kalla ráðuneytið Lyftum-upp-ráðuneyti. Það átti að halda utan um popúlíska hægri stefnu Boris gagnvart tekjulágu fólki og þeim landsvæðum sem orðið hafa út undan á tímum alþjóðavædds kapítalisma. Hugmyndin að baki er einskonar loforð um jafnaðarmennsku frá hægri, að þeim sem eru neðst sé lyft upp án þess að hin best settu missi nokkuð af auð sínum eða forréttindum. Þetta er því jafn dularfull kenning og brauðmolakenning Thatcher, sem átti að bæta hag allra með því að gefa hinum ríkustu fé, eignir, auðlindir og völd almennings.
Ríkisstjórn Liz Truss hefur lítinn áhuga á að sveigju Boris Johnson frá Thatcherisma. Þvert á móti vill Truss endurvekja ómengaða stefnu Thatcher og helst að gefa í. Viðbrögð alþjóðastofnana, markaða og samfélags sýna að hópurinn í kringum Truss er kannski síðasta fólkið í veröldinni sem ekki hefur áttað sig á að nýfrjálshyggjan stóð ekki við neitt af loforðum sínum. Öðru en því að gera hin ríku ríkari. Stefnan hægir á hagvexti, brýtur niður velferð og molar niður samfélögin.
Simon Clarke hefur misst af þessum lærdómi sögunnar. „Vestur-Evrópa er föst í alsælu heimskunnar, telur sig geta búið við minni hagvöxt en samkeppnislöndin en samt haldið uppi stærra velferðarríki, eins og að þetta tvennt geti staðist samtímis,“ sagði Clarke við The Times.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga