„Það er víst, samkvæmt fræðunum, eitt sem er ótta yfirsterkara. Von. Við þurfum von. Tíðarandi okkar virðist um of litast af sundrung, fjarveru og rofi. Við þurfum aukna nánd á tímum þar sem aldrei virðist vera erfiðara að veita hana, upplifa hana í fjarverunni. Við þurfum eldinn – aukin tengsl við náttúruna, aukin tengsl við okkar innri veru, okkar eigin nærveru,“ skrifar Héðinn Unnsteinsson formaður Geðhjálpar í Moggann.
Héðinn leggur m.a, út frá grein sem dr. Sönuh Ahsan, ungur sálfræðingur sem starfar innan bresku heilbrigðisþjónustunnar NHS, sem fjallað var um við Rauða borðið fyrir rúmum mánuði. Sjá má þá umfjöllun hér, ásamt viðtalið við Elínu Ebbu Ásmundsdóttur, forstöðukonu Hlutverkaseturs:
Héðinn minnir á fyrirsögn greinarinnar: Ég er sálfræðingur og ég trúi því að það sem okkur hefur verið sagt um geðheilbrigði séu mikil ósannindi. Og undirfyrirsögn: Skilningur samfélags okkar er sá að orsakir geðraskana séu innra með okkur – en hunsar samfélagslega orsakaþætti, þar sem þetta segir mikið til um innihaldið. En Héðinn endursegir innihaldið líka.
„Sanah segir að við séum að takast á við samfélagslegan og pólitískan vanda ójöfnuðar með greiningum og meðferð,“ skrifar Héðinn. „Hún spyr hvort sex skipti af hugrænni atferlismeðferð sem hjálpar til við að koma auga á óuppbyggileg hugsanamynstur muni hjálpa einstaklingi sem á í erfiðleikum með að sjá fjölskyldu sinni fyrir mat. Á sömu forsendum; hvort þunglyndislyf geti „læknað“ stöðugt áfall sem hörundsdökkur maður verður fyrir á „eitruðum“ vinnustað, eða hvort gjörhygli geti orðið barni að liði sem býr við mikla fátækt?“
Sanah endar greinina með myndlíkingu og spyr hvort við myndum greina visnandi plöntu með „plöntu-visnunar-heilkenni“ – eða reyna að breyta umhverfi plöntunnar og aðstæðum. „Engu að síður þjáist fólk í og við aðstæður sem eru ekki boðlegar og okkur er sagt að það sé eitthvað að okkur,“ segir hún.
Héðinn stillir grein Sönuh fram með rannsóknum prófessorsins Joönnu Moncrieff, sem kollvörpuðu hugmyndum um efnafræðilegt ójafnvægi í heila þegar um þunglyndi er að ræða og endurreisnartímabils hugvíkkandi efna, sem fjallað hefur verið um við Rauða borðið, sem einungis fáein dæmi um það hversu nauðsynlegt er orðið að endurskoða aðferða- og hugmyndafræði okkar í geðheilbrigðismálum
„Endalausri sjúkdómsvæðingu meintra raskana þarf að snúa við,“ skrifar Héðinn. „Við þurfum að horfa vandlega á samfélög okkar sem eru lituð af samanburði, samkeppni og einstaklingshyggju og nærast á aldagamalli meinloku um að staða einstaklings í samfélagi ráðist nær eingöngu út frá efnislegu „virði“.“
„En þetta er gamalt stef sem kapítalisminn hefur löngu kveðið í kútinn, ekki satt?“ spyr Héðinn. „Meira er jú betra og við ættum ekki einungis að huga að því að sinna þörfum okkar heldur gefa löngunum okkar einnig góðan tíma og leitast við að elta þann endalausa hring, því meira verður jú aldrei nóg. Hvað þarf til að gera samfélög okkar geðheilsuvænni? Hvað þarf til að við séum sátt? Hvernig getum við rofið þær neikvæðu tilfinningar sem við færum á milli kynslóða okkar, þá skömm sem oft flyst og fleytir kellingar öldum saman innan fjölskyldna?
Við sitjum enn við eldinn, viljum hlusta á sögur, tengjast öðrum, upplifa nánd og forðast rof. Við virðumst þó vera fjarlægari, fjarverur, en við viljum vera nær, vera nærverur – mannverur. Einkennir „aðskilnaðarorðræðan“ tíðarandann? Rafmagnið og tæknin hafi valdið ákveðnu rofi um leið og þau hafa bætt, lengt og breytt tilveru okkar, aukið lífsgæði – eða hvað?“
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga