Eignarhaldsfélag Eyþórs Arnalds, fyrrum oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, hagnaðist um 388 milljónir á síðasta ári. Hagnaður er tilkominn vegna þess að dótturfyrirtæki Samherja afskrifar lán sem það veitti Eyþóri til að kaupa hlut Samherja í Mogganum.
Viðskiptablaðið greini frá þessu. Í frétt blaðsins segir að Ramses II, félag Eyþórs, eigi nú tæplega 12% hlut í Þórsmörk, móðurfélagi Moggans, sem bókfærður var um áramótin á 100 milljónir króna. Bókfært virði hlutarins hafi lækkað frá kaupunum vegna hlutdeildar í taprekstri Þórsmerkur árin 2017 til 2020. Hins vegar var hagnaður af rekstri Þórsmerkur á síðasta ári sem skilaði sér jákvæðri afkomu hjá Ramses II upp á 17 milljónir króna árið 2021.
Samkvæmt þessu keypti Eyþór hlut Samherja með láni sem Samherji veitti Eyþóri og sem Samherji hefur nú afskrifað. Eyþór fékk því 100 m.kr. virði af hlutabréfum í Mogganum gratís frá stórútgerðarfyrirtækinu.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga