Stefnt er að því að flóttafólk flytji inn á Kumbaravog 1. nóvember. Kumbaravogur er á Stokkseyri og var síðast gistiheimili en fyrr á tímum var þar rekið drykkjumannaheimili, umdeilt barnaheimili og hjúkrunar- og dvalarheimili.
Fjóla Kristinsdóttir bæjarstjóri í Árborg segir staðsetninguna óheppilega og langt sé í alla þjónustu svo sem heilsugæslu og verslun enda sé húsið austast í bænum og afskekkt og engar almenningssamgöngur til og frá staðnum. Einnig gagnrýnir hún að ekkert samráð hafi verið haft við bæjaryfirvöld um málið. Ráðgert er að flóttafólkið á Kumbaravogi verði 54 og við það muni íbúum á Stokkseyri fjölga um meira en 10%.
Árborg er móttökusveitarfélag sem hefur tekið á móti flóttafólki með samningi við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og hefur sinnt um 40 manns. Sveitarfélagið er nú í fyrsta skipti að taka á móti umsækjendum um alþjóðlega vernd. Sveitarfélagið sjálft mun þó ekki hafa neina aðkomu að móttökunni á Kumbaravogi heldur verður hún alfarið í höndum ráðuneytisins.
Enn er óvíst hvernig samsetning íbúanna verður, hvort um sé að ræða fjölskyldufólk, einstaklinga eða karlmenn eingöngu. Á meðan Kumbaravogur var rekið sem hjúkrunarheimili voru þar 29 hjúkrunarrými og 1 dvalarrými og 50 manns á launaskrá en heimilið var einn stærsti vinnustaðurinn á Stokkseyri. Því var lokað í mars 2017 eftir að heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafði gert ítrekaðar athugasemdir við ástand hússins.
Dómsmálaráðherra Jón Gunnarsson og Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað viðrað hugmyndir sínar um að komið verði á laggirnar móttökubúðum fyrir hælisleitendur þar sem fólk skyldi halda til á meðan umsóknir þeirra um vernd væru til meðferðar. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra hafa þó ítrekað að engar slíkar búðir væru á dagskrá ríkisstjórnarinnar. Eftir sem áður er framkvæmda móttöku flóttafólks að færast æ nær hugmyndum Jóns og Bryndísar. Búðirnar á Kumbaravogi eru dæmi þess.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga