Okkur hefur verið sagt að hægrið hafi unnið hugmyndafræðilega baráttu kalda stríðsins. En það var ekki svo. Hægrið vann með því að drepa vinstrisinna um allan heim,“ segir Bragi Páll Sigurðsson rithöfundur, sem kom að Rauða borðinu að ræða fjöldamorð á kommúnistum í Indónesíu, sem skipulögð voru af bandarísku leyniþjónustunni, og afleiðingar þeirra.
Bragi Páll sagði okkur frá bók eftir bandaríska blaðamanninn Vincent Bevins The Jakarta Method: Washington’s Anticommunist Crusade and the Mass Murder Program that Shaped Our World. Sem mætti þýða sem Jakarta aðferðin: Andkommúnísk krossferð Washington og áætlunin um fjöldamorð sem mótaði veröldina.
Þar segir frá því að uppgangur sósíalismans eftir seinna stríð kom bandaríkjastjórn á óvart. Hún leit svo á að stríðið hefði verið um framtíð samfélagana og Bandaríkin hefðu unnið, að bandarískur kapítalismi ætti að breiðast um heiminn. En vinstrimenn komust til valda víða í Evrópu, ekki síst vegna forystu sinnar í andspyrnunni gegn nasistum. Og líka víðast í nýfrjálsum nýlendum þar sem vinstrisinnar höfðu leitt frelsisbaráttuna gegn nýlendukúgurum.
Indónesía hafði verið hollensk nýlenda öldum saman en var hernuminn af Japönum í seinna stríði. Þegar Japanir hörvuðu greip greip Indónesíski þjóðarflokkurinn og forystumenn hans, Suarto og Hatta, tækifærið og lýstu yfir sjálfstæði. Suarto varð fyrsti forseti Indónesíu.
Suarto var ekki sósíalisti, heldur and-nýlendusinni sem vildi sameina þjóðina og byggja upp samfélag sem byggði á menningu og sögu fólksins í Indónesíu. Kommúnistaflokkur Indónesíu hafði verið virkur í bæði baráttunni gegn Hollendingum og Japönum og var gríðarlega fjölmennur. Suarto leit á kommúnistana sem samstarfsfólk sitt við að byggja upp landið og Kommúnistaflokkurinn hafði víða áhrif.
Það voru þessi tengsl Suarto við kommúnista en ekki síður sjálfstæð utanríkisstefna hans sem truflaði Washington. Suarto reyndi að byggja upp alþjóðlegan valkost á móti tvískiptum heimi kalda stríðsins, þar sem lönd þurftu að velja í herbúðum hvors stórveldisins þau væru; Bandaríkjanna eða Sovétríkjanna.
Andsvar bandaríkjastjórnar var að þjálfa upp hægrimenn í Indónesíu og einkum þá sem voru í hernum og fremja valdarán. Því fylgdi síðan fjöldamorð þar sem á bilinu hálf til ein milljón manna var drepin, allt fólk sem voru félagar í Kommúnistaflokknum eða grunað um að vera kommúnistar, sósíalistar eða vinstrisinnað.
Í bók sinni segir Vincent Bevins að bandaríkjastjórn hafi verið alsæl um hversu vel tókst til. Reynslan var sett í það sem kallað var Jakarta Method, aðgerðaplan um hvernig ná mætti völdum í löndum sem kosið höfðu sér vinstrisinnuð stjórnvöld. Það gekk út á að láta herinn ræna völdum og drepa síðan alla forystu sósíalista og vinstrimanna til að kæfa þá hreyfingu.
Það er hægt að fara um heiminn og benda á lönd þar sem þessari aðferð var beitt og hvaða áhrif hún hafði. Alls staðar þar sem þjóðir voru að vakna og vildu móta sjálfar sína framtíð, þar voru þær tilraunir kæfðar með blóði. Og alltaf undir því yfirskini að verið væri að frelsa fólks. Það mætti velta fyrir sér hvernig heimurinn væri ef þessar tilraunir hefði fengið að ná fram. Heimurinn ætti þá kannski einhverja von.
Páll Bragi segir að lestur þessarar bóka hafi verið viss uppljómun þó að hann hafi svo sem vitað um það ofbeldi sem bandaríkjastjórn beitti. En hann hafi skilið betur að það ógeðslega kerfi sem var þröngvað upp á okkur, kapítalisminn sem er að eyða lífi á jörðinni, vann enga hugmyndabaráttu heldur var troðið upp á okkur með taumlausu ofbeldi.
Þrá fólks eftir réttlátara lífi og valddreifðara samfélagi voru kæfðar og leit fólks að því að byggja upp samfélag á öðrum gildum en taumlausri græðgi og arðráni var stöðvuð. Fólk valdi ekki grimman kapítalisma, honum var troðið upp á okkur.
En er of seint að finna þráðinn aftur og skapa valkost við kapítalismann? Já, segir Bragi Páll. Kapítalisminn heldur heiminum með kaldri krumlunni og mun ekki sleppa honum. Hann mun tortíma heiminum og farast með honum.
Samtalið við Braga Pál má sjá og heyra í spilarnum hér að ofan.
Hér má sjá stutta heimildarmynd/frásögn byggða á bókinni Jakarta Method eftir Vincent Bevins: The Chilling Story of the CIA-Sponsored ‘Jakarta Method’
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga